Hoppa yfir valmynd
05.04. 2017

Rúmlega hundrað milljónir manna vannærðar - mikil fjölgun milli ára

Vannærðum í veröldinni fjölgaði mikið milli áranna 2015 og 2016. Þeim fjölgaði um 28 milljónir, samkvæmt nýrri úttekt Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Í lok síðasta árs voru vannærðir 108 milljónir en 80 milljónir árið á undan. Þessi mikla fjölgun fólks sem býr við matvælaóöryggi og fær ekki nóg að borða á sér margar skýringar en vopnuð átök eru meginskýringin í mörgum tilvikum.


Aðrar helstu ástæður sem skýra þessa miklu fjölgun eru hátt matvöruverð á staðbundnum mörkuðum og öfgar í veðurfari sem spillt hafa uppskeru, bæði þurrkar og flóð. Borgarastyrjaldir eru hins vegar lykilþáttur í níu af tíu heimshlutum þar sem neyðarástand ríkir og undirstrikar bein tengsl milli friðar og matvælaöryggis, eins og sagt er í skýrslunni: Global Report on Food Crisis 2017.

Óttast er að á þessu ári komi ástandið til með að versna enn frekar. Hungursneyð blasir við í fjórum löndum, Suður-Súdan, Sómalíu, Jemen og norðurhluta Nígeríu og nokkrar aðrar þjóðir þurfa á mikilli matvælaaðstoð að halda á næstu mánuðum eins og Írak, Sýrland og nágrannaríki sem hýsa flóttafólk, Malaví og Simbabve, að því er fram kemur í skýrslu FAO.

108 million people in the world face severe food insecurity - situation worsening/ FAO UN Food Organisation deputy chief: 'Famine is back'

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum