Hoppa yfir valmynd
05.04. 2017

Utanríkisráðherra á ráðstefnu í Brussel um framtíð Sýrlands

GudlaugursyraGuðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tekur í dag þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um Sýrland sem fram fer í Brussel. Ráðstefnan, sem ber yfirskriftina "Stuðningur við framtíð Sýrlands og nágrannaríki þess" er haldin á vegum Evrópusambandsins, Sameinuðu þjóðanna, Bretlands, Katar, Kúveit, Noregs og Þýskalands.

"Í ljósi þess að alþjóðasamfélagið er að koma saman til að ræða ástandið í Sýrlandi og viðbrögð við því, eru skelfilegar fréttir sem berast frá Sýrlandi um enn eina árás á óbreytta borgara; árás þar sem allt bendir til að efnavopnum hafi verið beitt," segir Guðlaugur Þór.

Á ráðstefnunni verður farið yfir árangur af starfi alþjóðasamfélagsins við að finna pólitíska lausn til að koma á friði í Sýrlandi og við alþjóðlegt mannúðarstarf á vettvangi. Ljóst er að betur má ef duga skal og er ráðstefnunni ætlað að vera vettvangur til að endurnýja stuðning alþjóðasamfélagsins við friðarferlið og mannúðarstarfið sem fram fer í Sýrlandi og nágrannaríkjum þess.

Twittersyriaconf2017Stofnanir Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðilar þeirra hafa óskað eftir verulega auknum fjárveitingum til sýrlenskra flóttamanna í nágrannaríkjum Sýrlands. Alþjóðleg ráðstefna um stuðning við Sýrland og nágrannaríkin stendur yfir í Brussel í dag og á morgun. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tekur þátt í ráðstefnunni.

Fjárskortur ógnar hjálparstarfi

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðilar þeirra hafa óskað eftir verulega auknum fjárveitingum til sýrlenskra flóttamanna í nágrannaríkjum Sýrlands. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Þróunarstofnunin (UNDP) hafa fyrir hönd 240 alþjóðlegra og innlendra samstarfsaðila og ríkisstjórna nágrannaríkjanna lýst gríðarlegum áhyggjum af hversu lítils fjár hefur verið aflað til að sinna milljónum sýrlenskra flóttamanna í nágrenninu og styðja við bakið á þeim samfélögum sem skotið hafa skjólshúsi yfir þá. Í frétt Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) segir að talið sé að 4,63 milljarða bandarískra dala þurfi til að halda áfram að sinna fullnægjandi vernd og aðstoð við flóttamennina og samfélögin sem þá hýsa. Hingað til hafa aðeins borist fjárframlög að upphæð 433 milljóna dala, eða aðeins 9% af áætlaðri þörf.

Í fréttinni kemur fram að rúmlega fimm milljónir sýrlenskra flóttamanna séu í Egyptalandi, Írak, Jórdaníu, Líbanon og Tyrklandi, auk þeirra sem hafa lagt á sig lífshættulega ferð til Evrópu og jafnvel enn lengra.

Mesti mannúðarvandi heimsins

"Án frekari fjárveitinga, verður að draga úr allri aðstoð í ár. Matar- og fjárstuðning verður að minnka eða stöðva um mitt árið en slíkt felur í sér ógn við stöðugleika og öryggi í þessum heimshluta," segir í yfirlýsingu Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR) og Þróunarstofnunar SÞ (UNDP).
"Ástandið er orðið mjög alvarlegt," segir Filippo Grandi, flóttamannastjóri Sameinuðu þjóðanna. "Nú þegar horfum við upp á börn sem geta ekki sótt skóla og fjölskyldur sem hafa hvorki þak yfir höfuðið né geta séð sér fyrir brýnustu nauðsynjum."
"Það er sama sagan í öllum þessum heimshluta, það er mikið álag á vatns- og salernisaðstöðu, og vinnu- og húsnæðismarkaði," segir Helen Clark, forstjóri Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Ráðstefnan í Brussel um stuðning við framtíð Sýrlands og heimshlutans er haldin í dag og á morgun. Átökin í Sýrlandi eru mesti mannúðarvandi heims, segir í frétt UNRIC, en auk flóttamannanna þurfa 13,5 milljónir karla, kvenna og barna innan landamæra Sýrlands einnig á aðstoð að halda.

NánarUNHCR warns funding cuts threaten aid to Syrian refugees, hosts/ UNHCR 
Guterres biður um aukna aðstoð vegna Sýrlands/ UNRIC 

yria envoy claims 400,000 have died in Syria conflict/ UN 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum