Hoppa yfir valmynd
13.04. 2017

Útflutningsvara nr. 1

IMG_3165Jafnrétti kynjanna er eitt áherslumál Íslands sem má finna í öllu starfi okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Jafnréttismál eru tekin upp hvort sem er í umræðum um öryggismál, þróunarmál eða hvar sem því er komið við. 

Þegar vinna hófst við ný markmið til að taka við þúsaldarmarkmiðunum var stefna Íslands því skýr, reynsla okkar og annarra hefði sýnt á skýran hátt að jafnrétti væri lykill að árangri á flestum sviðum sem voru til umræðu. Fastanefndin beitti sér því á markvissan hátt í samstarfi við Norðurlöndin, UN Women og önnur líkt þenkjandi ríki með atburðum tengdum jafnréttismálum, bakgrunnsskjölum öðrum ríkjum til upplýsinga, sameiginlegum yfirlýsingum og fleira.

IMG_3166Það var því mikil ánægja eftir margra ára vinnu til stuðnings því að jafnrétti yrði lykilatriði í nýju markmiðunum að ný heimsmarkmið voru samþykkt haustið 2015. Ólíkt þúsaldarmarkmiðunum þá er jafnréttið bæði með sitt eigið markmið og einnig þverlægt áherslumál í gegnum öll markmiðin. Var Íslandi þakkað sérstaklega af UN Women og mannfjöldasjóði SÞ (UNFPA) fyrir þrotlausa vinnu til stuðnings jafnrétti og sérstaklega áherslu okkar á kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindi. Mikilvægi orðsporðs Íslands og sú reynsla sem við búum að skiptu hér höfuðmáli.

Einn sá atburður sem Ísland skipulagði til að hafa áhrif á umræðuna var rakarastofuráðstefnan (Barbershop). Þrátt fyrir að meginmarkmið ráðstefnunnar hafi verið að koma af stað umræðu um hlutverk karla í jafnréttisumræðunni þá hafði það einnig mjög jákvæð áhrif að þar komu saman rúmlega 100 sendiherrar víðs vegar að og ræddu opinskátt um mikilvægi jafnréttismála, aðeins örfáum mánuðum fyrir samþykkt nýrra markmiða. 

Rakarastofuráðstefnur hafa nú verið haldnar víðs vegar um heiminn og hefur verið einstaklega vel tekið af öllum sem hafa komið að eða tekið þátt í ráðstefnunum. Sú nálgun sem hugmyndin byggir á, að hvetja karla til samtals við aðra karla á jákvæðan hátt, passar einnig vel inn í framlag okkar til HeforShe átaksins.

Hluti af þessu framlagi okkar til HeforShe var að útbúa svokallaða verkfærakistu í samstarfi við landsnefnd UN Women á Íslandi til að leyfa öðrum að nota þau tól sem við og aðrir höfðu þróað til að skapa það umhverfi sem hvetur til umræðu á milli karla um jafnréttismál. Fyrir áhugasama þá má finna verkfærakistuna hér. 

Var hinni nýju verkfærakistu hleypt af stokkunum á alþjóðadegi 8. mars síðastliðinn af forsætisráðherra fyrir fullum sal fólks í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna hér í New York. Viku síðar á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna kynnti velferðarráðherra hina nýju verkfærakistu, einnig við gríðarlega góðar undirtektir. Færri komust að en vildu og 600 manns höfðu horft á vefsendingu frá atburðinum örfáum tímum síðar. 

Líkt og í starfi okkar fyrir jafnrétti í hinum nýju markmiðum þá skipti orðspor og þekking Íslands gríðarlega miklu máli við þróun verkfærakistunnar og áhuga annarra á að byggja á okkar grunni. 
Er það ekki síst þar sem samstarfaðilar sjá það í öllu starfi okkar, hvort sem það er sú vinna sem ég hef minnst á hér á alþjóðavettvangi, stuðningur Íslands við stofnanir líkt og UN Women, mannfjöldasjóðinn (UNFPA), starf jafnréttisskóla SÞ á Íslandi og tvíhliða aðgerðir gegn t.d. mæðradauða á Monkey Bay svæðinu í Malaví og Mangochi héraðinu öllu, að Ísland er að meina það sem það segir þegar kemur að jafnréttismálum. 

Má því segja að þegar kemur að Íslandi og jafnréttismálum þá velti lítil þúfa þungu hlassi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum