Hoppa yfir valmynd
14.04. 2017

Berjast þarf gegn samþykktum viðhorfum og rótgrónum hefðum

https://youtu.be/LqyBvm2_ioI

"Ljóst er að það mun taka nokkrar kynslóðir að breyta viðhorfum samfélaga til fullnustu og afnema barnahjónabönd og limlestingar á kynfærum stúlkna, ef marka má umræður á ráðstefnu um þessi mál sem nýlega var haldin í Kampala," segir Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir sérfræðingur í sendiráði Íslands í Kampala. Í síðustu viku fór fram árleg ráðstefna Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og Barnahjálpar Sameinuðu Þjóðanna (UNICEF) um aðgerðir gegn barnahjónaböndum og limlestingu á kynfærum stúlkna. (FGM/C).

Saman leiða þessar tvær stofnanir stærsta alþjóðlega verkefnið sem snýr að afnámi slíkra limlestinga og í ár var ráðstefna þeirra haldin sem hluti af árlegri ráðstefnu stofnanna um baráttuna gegn barnahjónabandi. Það var gert vegna tilkomu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, en undirmarkmið 5.3 segir að allir skaðlegir siðir, eins og barnahjónabönd, snemmbúin og þvinguð hjónabönd og sköddun kynfæra kvenna verði afnumdir.

Á ráðstefnunni var haldinn sameiginlegur fundur aðila sem vinna að báðum málaflokkum og var fulltrúum sendiráðs Íslands í Kampala boðið að sitja þann fund. Þar sátu einnig fulltrúar frá aðalskrifstofum UNICEF og UNFPA í þeim löndum sem verkefnin tvö ná til, en verkefnið gegn limlestingu á kynfærum stúlkna nær til 17 landa og verkefnið gegn barnahjónaböndum nær til 12 landa. Af samstarfslöndum Íslands falla Úganda og Mósambík undir þau lönd sem baráttan gegn barnahjónaböndum nær til, Úganda fellur einnig undir þau lönd sem baráttan gegn limlestingu á kynfærum stúlkna nær til.

Upplýsa og fræða

Að sögn Sigrúnar Bjargar gafst á fundinum tækifæri til að taka saman árangur undanfarinna ára. "Áhersla var lögð á hvað væri sameiginlegt með þessum málaflokkum og hvernig væri hægt að berjast gegn þeim báðum í einu. Ljóst er að báðir þættir eru keyrðir áfram af fátækt og skorti á tækifærum til menntunar meðal annars, en einnig spila samþykkt viðhorf og rótgrónar hefðir samfélaga inn í. 

Á fundinum var því talað um mikilvægi þess að stuðla að breyttum viðhorfum þeirra samfélaga þar sem barnahjónabönd og limlestingar á kynfærum stúlkna eru hvað algengust og hvaða leiðir væru líklegastar til árangurs. Þar er unnið að heildrænni nálgun á málefninu þar sem ekki einungis er barist fyrir því að löndin setji bann gegn þessum þáttum í lög, heldur er lögð áhersla á að grafa niður að rótinni - fara í samfélögin og upplýsa og fræða um skaðsemi limlestinga á kynfærum stúlkna og barnahjónabanda á ungar stúlkur. Þá var lögð áhersla á aukna félags- og heilbrigðisþjónustu til samfélaga, styrkingu kvenna og menntun stúlkna - það hefur sýnt sig að stúlkur í skóla eru ólíklegri til að giftast og menntaðar mæður eru ólíklegri til að láta skera dætur sínar. Mönnum hefur orðið ágengt en betur má ef duga skal," segir Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir í Kampala.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum