Hoppa yfir valmynd
17.04. 2017

Atvinnuleysi og eymdarlíf í fátækrahverfum Kampala

IMG_3172Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið fjársöfnun fyrir verkefni í þágu barna og ungmenna í Kampala höfuðborg Úganda en þangað liggur þungur straumur ungs fólks í von um betra líf. "Því miður bíður flestra þeirra hins vegar atvinnuleysi og eymdarlíf í fátækrahverfum og mörg ungmenni leiðast út í smáglæpi og vændi til að lifa af," segir í  blaðinu Margt smátt sem Hjálparstarfið gefur út og var dreift með Fréttablaðinu á dögunum.

Kampalaverkefni Hjálparstarfsins er í þremur fátækrahverfum í höfuðborginni og stendur yfir í þrjú ár. Áætlaður heildarkostnaður er um 33 milljónir króna.

Markhópurinn eru 1500 börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára en markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það geti nýtt til að sjá sér farborða, að það taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Lútherska heimssambandið og samtökin UYDEL (Ugandan Youth Development Link) með góðum stuðningi utanríkisráðuneytisins.

UYDEL hefur rúmlega tuttugu ára reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala. Þau reka verkmenntamiðstöðvar þar sem ungmennin  geta valið sér ýmis svið og öðlast nægilega hæfni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð.

Anna Nabylua félagsráðgjafi er aðstoðarframkvæmdastjóri Uganda Youth Development Link (UYDEL) og stýrir Kampalaverkefni Hjálparstarfsins. Hún hefur áralanga reynslu af starfi með börnum og unglingum sem eru í viðkvæmri stöðu í samfélaginu og útsett fyrir mansali og annarri misnotkun. Anna segir að til þess að ná mestum árangri í starfinu hafi reynslan kennt að best sé að virkja unglingana og efla sjálfsmynd þeirra með því að fá þeim viðráðanleg verkefni sem samt séu krefjandi. Hún leggur ríka áherslu á að unglingarnir læri um rétt sinn til heilbrigðisþjónustu og um kynheilbrigði. HIVsmit eru tíðari í fátækrahverfunum en annars staðar í Kampala og nýsmit eru tíðust meðal vændiskvenna. Anna og annað starfsfólk UYDEL leitast við að koma unglingunum sem hafa lokið námi í iðngrein í starfsnemastöður í fyrirtækjum en þannig á unga fólkið von um betra líf.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum