Hoppa yfir valmynd
18.04. 2017

Álfabikarinn nýr - og svolítið skrýtinn - en fellur undir jákvæða þróun

Womena-trainingÍ héraðsþróunarsamstarfi Íslands og Buikwe héraðs er leitast við að innleiða lausnir og nýjungar samhliða hefðbundnum "stórum verkþáttum" eins og byggingum, kennaraþjálfun og vatnsmálum.  Eitt þessara verkefna snýr að kynheilbrigði og aðstoð við unglingsstúlkur að stjórna blæðingum, sem er eilíft vandamál hjá fátækum stúlkum.  

Félagasamtökin WoMena hafa tekið þátt í undirbúningi verkefnis á þessu sviði með sendiráði Íslands og héraðsskrifstofunni og héldu þau nýlega samráðsfund á vettvangi til að kynna hugmyndina um innleiðingu álfabikarsins (e. menstrual cup).  Þar er miðað við framhaldsskóla héraðsins sem njóta stuðnings íslenska sendiráðsins í Kampala. 

Eins og Heimsljós greindi frá í síðustu viku komst sendiráðið í kynni við WoMena eftir að rannsókn á brottfalli framhaldsnemenda í Buikwe leiddi í ljós að blæðingar höfðu lamandi áhrif á aðsókn stúlknanna í skóla. Eitt af helstu markmiðum WoMena er að gera stúlkum kleift að mæta í skóla allan ársins hring, óháð tíðahring þeirra.

Fundurinn í Buikwe var vel sóttur af um 60 manns. Þar á meðal voru skólastjórar, kennarar, heilbrigðisstarfsmenn, fulltrúar héraðsyfirvalda og trúarleiðtogar. "Eins og við mátti búast mynduðust miklar og áhugaverðar umræður um álfabikarinn og hvort það væri mögulegt og jafnvel viðeigandi að kynna hann fyrir skólastúlkum héraðsins. Flestir voru jákvæðir í garð álfabikarsins og sögðu að stúlkur héraðsins ættu að fá tækifæri til að kynnast bikarnum sjálfar, með hjálp WoMena, og sjá hvort hann hentaði þeim. Þá sögðu fundarmeðlimir að þó að álfabikarinn væri nýr fyrir þeim - jafnvel svolítið skrýtinn - þá félli hann vissulega undir jákvæða þróun. Sögðu fundargestir þá að áður fyrr hefðu konur notað hluti á borð við lauf og pappír til að stjórna blæðingum sínum, og því bæri að taka nýjungum á borð við álfabikarinn fagnandi," segir Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir sérfræðingur í sendiráði Íslands sem sótti fundinn.

Sigrún Björg segir að þær áhyggjuraddir sem heyrðust hafi aðallega snúið að hreinlæti og alls ekki af tilefnislausu. "Álfabikarinn samræmist því vel helstu verkefnum sendiráðs Íslands sem ganga út á að bæta hreinlæti, einkum aðgengi að vatni og tryggja viðeigandi salernisaðstæður í samstarfsskólum sínum," segir Sigrún Björg. Hún bætir við að þar að auki hljóti stúlkur og kennarar þeirra skóla sem fá álfabikarinn frá WoMena þjálfun og fræðslu í hreinlæti og viðeigandi notkun á álfabikarnum og það hafi, samkvæmt WoMena, gengið að óskum.

Nomoneyforsanitarypads"Eftir þennan jákvæða og áhugaverða fund virðist því ekkert vera því til fyrirstöðu að skoða frekara samstarf WoMena, Buikwe héraðs og sendiráðs Íslands með það að markmiði að tryggja það að stúlkur geti sótt nám óháð blæðingum þeirra," segir hún. 

Nýlunda er að þessi mál eru nú stöðugt til umræðu í fjölmiðlum í Úganda eins og sjá má á meðfylgjandi mynd af nýlegri frétt í úgöndsku dagblaði. Þar segir Janet Muzeveni menntamálaráðherra og forsetafrú að ekki sé unnt að útvega ókeypis dömubindi eins og lofað var í kosningabaráttunni fyrir rúmu ári, engin efni væru á slíku hjá hinu opinbera. "Vænta má að þetta þýði að æ fleiri séu móttækilegir fyrir öðrum lausnum," segir Sigrún Björg.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum