Hoppa yfir valmynd
26.04. 2017

Aðstoða á mósambísk stjórnvöld við framkvæmd aðgerðaráætlunar um konur, frið og öryggi

UndirritunsamningsMaputoSendiráð Íslands í Mapútó hefur skrifað undir samstarfssamning við UN Women í Mósambík. Að sögn Vilhjálms Wiium forstöðumanns sendiráðsins beinist samstarfið að því að aðstoða mósambísk stjórnvöld við framkvæmd fyrstu aðgerðaáætlunar sinnar til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. 

Sú ályktun viðurkennir sérstöðu kvenna í stríði og mikilvægi hlutverks þeirra í friðaruppbyggingu. "Í Mósambík þar sem borgarastyrjöld ríkti í rúm sextán ár og enn eru róstur öðru hverju skiptir ályktunin og framkvæmd hennar gríðarlega miklu máli," segir Vilhjálmur.

Samstarfsverkefnið nefnist á ensku "Promoting women and girls' effective participation in peace, security and recovery in Mozambique" og jafnréttis-, barna- og félagsmálaráðuneyti Mósambíkur verður helsti samstarfsaðili UN Women.                               

Lilja Dóra Kolbeinsdóttir verkefnastjóri í sendiráði Íslands segir að meginmarkmið verkefnisins sé að tryggja að ferlar og áætlanir sem stuðla að friði, öryggi og endurreisn í mósambísku samfélagi stuðli að jafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna sem oft verða útundan í þess háttar ferlum og áætlunum. Verkefnið verður unnið í nokkrum héruðum í fjórum fylkjum Mósambíkur.

"Verkefnið er þannig byggt upp að auðvelt er að stækka það og fjölga fylkjum og héruðum ef viðbótarfjármagn fæst frá öðrum framlagsríkjum. Það má hugsa verkefnið sem frumkvöðlastarf, verkefni sem vísar veg og leggur línur til framtíðar um framkvæmd ályktunar 1325 í Mósambík," segir Lilja Dóra.

Verkefnið samræmist vel áherslum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og ýmsum jafnréttis- og mannréttindastefnum  sem Ísland er aðili að. Verkefnið leggur sitt að mörkum til Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun, ekki síst til markmiðs nr. 5 um jafnrétti kynjanna og markmiðs nr. 16 um frið og réttlæti.

Myndatexti: Vilhjálmur Wiium forstöðumaður sendiráðs Íslands í Mapútó og Florence Raes staðarfulltrúi UN Women í Mósambík. Ljósmynd: UNWomen

Mozambique, Iceland and UN Women ink deal on women empowerment/ APA

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum