Hoppa yfir valmynd
26.04. 2017

Flóttamannavandinn alvarlegur en ekki óyfirstíganlegur, að mati fræðimanna

FlottamananskyrslaFlóttamannavandinn er til umfjöllunar í nýrri skýrslu frá fræðasetrinu Central for Global Development og alþjóðlegu flóttamannanefndinni (International Rescue Committee). Þar eru settar fram tillögur til að mæta þeim áskorunum sem við blasa í veröldinni þar sem 65 milljónir manna hafa flúið heimili sín og eru ýmist á vergangi innanlands eða hafa stöðu flóttamanna en síðarnefndi hópurinn telur 21 milljón. 

Skýrsluhöfundar segja vandann alvarlegan en ekki óyfirstíganlegan. Með sameiginlegu átaki alþjóðasamfélagsins sé unnt að bregðast við þeirri ógn sem við blasir. Höfundarnir benda á að flóttamenn séu einungis 0,3% mannkyns og að þeir dreifist landfræðilega ekki á marga staða. 

Þorri flóttamanna í þróunarríkjum

Fram kemur í skýrslunni að 88% flóttamanna séu í lágtekju- og meðaltekjuríkjum. Straumur flóttamanna inn í fátæk ríki ógni þróun og stöðugleika í þessum löndum, bæði með svæðisbundum afleiðingum og alþjóðlegum. Hins vegar megi með góðri stjórnun koma því þannig fyrir að gistiríkið njóti ávinnings af komu flóttafólk.

Átök og hörmungar hafa leitt til þess að 21 milljón manna hafa leitað hælis utan föðurlandsins þar af 5 milljónir manna sem flúið hafa Sýrland frá því borgarastyrjöldin hófst árið 2011. Í skýrslunni segir að um það bil 76% flóttamanna séu ekki í flóttamannabúðum sem leiði til þess að erfiðara en ella er að hafa upp á þeim og bregðast við þörfum þeirra.           

Þá séu sífellt fleiri á flótta í langan tíma. Það sjáist á því að flóttamenn eru að jafnaði 10 ár fjarri heimilum sínum og þeir sem hafa verið flóttamenn lengur en fimm ár snúi ekki heim fyrr en að 21 ári liðnu að meðaltali. 

Sérfræðingar Center for Global Development leggja til að ríkisstjórnir heims, þróunar- og mannúðarsamtök, einkageirinn og borgarasamtök  taki höndum saman undir forystu þeirra þjóðríkja sem hýsa flesta flóttamenn og vinni að sjálfbærri lausn fyrir flóttafólkið og samfélögin þar sem þeir búa. Sérfræðingarnir leggja til þrjár meginreglur og tíu tilmæli fyrir stjórnmálamenn til að byggja upp árangursríka samninga í þágu þeirra þjóða sem hýsa þorra flóttamanna.

Skýrslan: REFUGEE COMPACTS - Addressing the Crisis of Protracted Displacement/ CGDev og International Rescue Comittee

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum