Hoppa yfir valmynd
26.04. 2017

Harðnandi átök í Afganistan

Una2Á föstudaginn var, þann 21. apríl, frömdu Talíbanar sína mannskæðustu árás gegn afganska hernum frá upphafi stríðsins árið 2001. Yfir 140 hermenn voru stráfelldir í óvæntri innrás á herstöðina Shaheen í norðurhluta landsins, þar sem þeir ýmist sátu yfir hádegismat eða bænastund, óvopnaðir. Rétt rúmri viku áður, 13. apríl, varpaði Bandaríkjaher öflugustu sprengju vopnabúrs síns, að kjarnorkuvopnum undanskildum, á neðanjarðarherbúðir ISIS-K hryðjuverkasamtakanna í austurhluta Afganistan og er þetta í fyrsta skipti sem gripið er til þess vopns. Það var 6 vikum eftir að ISIS lýstu yfir ábyrgð á stríðsglæp sem framinn var 6. mars, með blóðugri hryðjuverkaárás á Sardar Dauda Khan hersjúkrahúsið í miðborg Kabúl, en fram að því var ekki talið að ISIS hefðu nægilega fótfestu í Afganistan til að framkvæma svo flókna árás.

Þessi snarpa röð alvarlegra atburða á stuttu tímabili vormánaða ber með sér teikn á lofti um versnandi ástand í Afganistan, 16 árum eftir að harðstjórn Talíbana var felld með innrás Bandaríkjahers. Ábyrgð öryggismála landsins hvílir nú að öllu leyti á herðum Afgana sjálfra, eftir að alþjóðalið NATO dró sig formlega út úr vopnuðum átökum í landinu í árslok 2014, en sú byrði er þung fyrir tiltölulega nýstofnað her- og lögreglulið. Afganistan reiðir sig því enn mjög á einarðan stuðning NATO ríkja. Markmið núverandi verkefnis alþjóðaliðsins er fyrst og fremst að veita afgönskum stjórnvöldum, her og lögreglu ráðgjöf, þjálfun og stuðning. Yfirlýst lokatakmark er að Afganistan verði sjálfbært samfélag og sjálfráða um eigin framtíð þar sem stöðugleiki ríkir og almenningur hefur traust á grunnstoðum samfélagssáttmálans.

Friður í Afganistan er lykill að stöðugleika í heimshlutanum öllum, en því miður virðist enn langt í land með að það markmið náist. NATO vinnur því leynt og ljóst að því að hjálpa afgönskum her- og lögreglumönnum að öðlast sjálfstraust til þess að takast á við þær miklu áskoranir sem bíða þeirra, því meðal viðvarandi vandamála í átökunum er að hermennirnir einfaldlega leggi niður vopn og flýi af hólmi þegar vígamenn Talíbana nálgast.  

Helmand-Shooting-RangeMyndar þjálfun hermanna 

Undirrituð hefur meðal annars unnið að því að mynda og segja frá þjálfun afganskra hermanna á vetrarmánuðum, nú síðast í Helmand héraði. Þar hafa átökin í landinu verið einna hörðust, sem meðal annars má rekja til þess að Helmand er helsta framleiðslusvæði ópíums í heiminum. Því fylgdu blendnar tilfinningar að ræða við ungu mennina sem fylla 215. sveit afganska hersins í Helmand. Flestir eru á þrítugsaldri, eða yngri. Þeir virtust trúa á málstaðinn og hafa metnað fyrir að standa sig vel, en þeir hafa ekki mikið val um annað. Á æfingasvæði, þar sem útskriftarverkefnið var að finna og grafa upp heimatilbúnar sprengjur (IEDs), hitti ég pilt sem beitti fyrir sig þýsku þegar hann sá mig. Hann hafði flúið land og dvalið um nokkurra mánaða skeið í Bæjaralandi, þar til honum var neitað um hæli og snúið aftur til heimalandsins, líkt og þúsundum afganskra flóttamanna í Evrópu á síðasta ári. Við heimkomuna sá hann þann kost vænstan að ganga í herinn og sagðist vonast til að gera gagn þar. Hann var málglaður og félagar hans grínuðust með það við mig að einhvern daginn myndi hann slá í gegn í Hollywood.  

Líkurnar eru þó því miður ekki með honum, eða hinum ungu mönnunum. Að lokinni þjálfun verða þeir sendir út á vígvelli Helmand í sumar. Yfir 6700 afganskir hermenn létust í átökum árið 2016 og hefur mannfallið aldrei verið meira, eða ríflega þrefalt allt mannfall Bandaríkjahers samanlagt frá innrásinni 2001.

Engu að síður hafa afganskar öryggissveitir jafnt og þétt náð framförum, sem sýna að þjálfun og ráðgjöf alþjóðaliðsins skilar árangri. Ný kynslóð ungra Afgana sem er mun hæfari í stjórnunarstöðum en fyrirrennarar þeirra vekur góða von um framtíðarárangur, þótt í of mörgum tilfellum flækist eldri kynslóðin enn fyrir og haldi aftur af þeim. Og það eru ekki aðeins Afganir sem læra af samstarfinu við NATO. Ég hef lagt mig eftir því að spyrja líka ráðgjafana úr alþjóðaliðinu hvort þeir persónulega dragi einhvern lærdóm af verkefninu í Afganistan og flestir hafa svipaða sögu að segja: Þeir hafi lært að þeirra nálgun að heiman er ekki endilega alltaf sú eina rétta í þessum aðstæðum, að í sumum tilfellum vilji Afganir gera hlutina með öðrum hætti og vænlegast til árangurs sé að hlusta og leyfa þeim að gera það.

Þannig má kannski segja að alþjóðalið NATO nálgist verkefnið í Afganistan af aukinni auðmýkt, enda hefur sýnt sig undanfarin 16 ár að það er engin einföld lausn til við þeirri gríðarflóknu stöðu sem uppi er eftir áratugi stríðs í landinu. Vonin er auðvitað sú að NATO geti á endanum dregið sig með öllu út og skilið þannig við Afganistan að það standi á eigin fótum til framtíðar. Með ráðstefnunum í Varsjá og Brussel á síðasta ári hefur alþjóðasamfélagið ítrekað skuldbindingu sína til þess að styðja áfram við þróunarstarf í Afganistan næstu árin, til þess að það megi verða að veruleika.                      

Ljósmyndir: Kay Nissen

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum