Hoppa yfir valmynd
26.04. 2017

Malaví meðal þriggja Afríkuríkja sem prófa bóluefni gegn malaríu

Malawigirl4Fyrsta bóluefnið gegn malaríu verður prófað í þremur Afríkuríkjum á næsta ári, Gana, Kenía og Malaví. Eftir áratugalangar rannsóknir var greint frá því fyrir tveimur árum að tekist hefði að þróa mótefni gegn malaríu (mýrarköldu) og á næsta ári er komið að því að reyna á notagildi RTS,S bóluefnisins. Það gæti bjargað tugþúsundum mannslífa á hverju ári, að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), en tæplega helmingur jarðarbúa er í áhættuhóp gagnvart malaríusýkingum.

Samkvæmt frétt BBC er þó enn óljóst hversu gagnlegt bóluefnið reynist í fátækustu ríkjum heims. Gefa þarf bóluefnið fjórum sinnum, einu sinni í mánuði í þrjá mánuði og síðan í fjórða sinn átján mánuðum síðar. Bóluefnið styrkir ónæmiskerfið gegn frumdýri sem veldur malaríu og berst með biti moskítóflugunnar.

Á hverju ári deyr um hálf milljón manna af völdum malaríu, rúmlega níu af hverjum tíu í Afríku og mikill meirihluti þeirra börn. Talsvert hefur þó á síðustu árum dregið úr nýgengi sjúkdómsins og samkvæmt gögnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) fækkaði malaríutilvikum í heiminum um 21% á árunum 2010-2015. Dauðsföllum af völdum malaríu fækkaði um 29% á sama tímabili.

Alþjóðlegi malaríudagurinn var í gær, 25. apríl.

Malaria threatens nearly half of the world's population/ UNRIC
It took decades of research, but the world's first malaria vaccine is finally ready for showtime/ Qz

Prevent malaria - save lives: WHO push for prevention on World Malaria Day, 25th April/ WHO

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum