Hoppa yfir valmynd
26.04. 2017

Mikilvægi kvenna í friðaruppbyggingu

HermennmozÞann 20. apríl síðastliðinn undirritaði Ísland samstarfssamning við UN Women í Mósambík uppá 2.5 milljón bandaríkjadali til fjögurra ára (2017-2020). Beinist verkefnið að því að aðstoða mósambísk stjórnvöld við framkvæmd fyrstu aðgerðaáætlunar sinnar til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. 

Sú ályktun viðurkennir sérstöðu kvenna í stríði og mikilvægi hlutverks þeirra í friðaruppbyggingu. Í Mósambík þar sem borgarastyrjöld ríkti í rúm sextán ár og enn eru róstur öðru hverju skiptir ályktunin og framkvæmd hennar gríðarlega miklu máli. Verkefninu var hleypt af stokkunum við hátíðlega athöfn þar sem rúmlega hundrað manns tóku þátt frá hinum ýmsu hagaðilum. Lögreglukórinn tók lagið eftir ræðuhöld og undirritun samstarfssamningsins.   

Helsti samstarfsaðili UN Women er Jafnréttis-, barna- og félagsmálaráðuneyti í Mósambík sem fer með málefnið að hálfu stjórnvalda. Vegna eðli verkefnisins eru verkþættir sem beinast að þjálfun og  samstarfi við innanríkis- og varnarmálaráðuneyti (lögreglu og her) landsins.  Hefur verkefnið fengið mikla fjölmiðlaumfjöllun og þakka framkvæmdastýra UN Women í Mósambík og ráðherra jafnréttismála þennan góða stuðning Íslands við málefnið.     

Meginmarkmið verkefnisins er að tryggja að ferlar og áætlanir sem stuðla að friði, öryggi og endurreisn í mósambísku samfélagi leggi sitt að mörkum til jafnréttis og valdeflingar kvenna og stúlkna, en oft verða þær útundan í þess háttar ferlum og áætlunum. Verkefnið verður unnið í fjórum til fimm héruðum í fjórum fylkjum í mið og norður Mósambík, Manica, Tete, Sofala og Zambézia. Er verkefnið byggt þannig upp að auðvelt er að stækka það og fjölga fylkjum og héruðum ef viðbótarfjármagn fæst frá öðrum gjafaríkjum. Hugsa má verkefnið sem frumkvöðlastarf, verkefni sem vísar veg og leggur línur til framtíðar um framkvæmd aðgerðaráætlunar ályktunar 1325 í Mósambík.                

MaputoUNWomen2Markmið (e. outcome) verkefnisins eru þrjú: öryggi, líkamleg og andleg heilsa kvenna og stúlkna bætt og mannréttindi þeirra varin; félags- og efnahagsleg endurreisn í þágu kvenna og stúlkna aukin á fyrrum átakasvæðum og hvetjandi umhverfi fyrir sjálfbæra framkvæmd á skuldbindingum á Konur, friður og öryggi styrkist. Helstu afurðir (e.outputs) eru eftirfarandi:

Afurð 1.1: Konur og stúlkur sem orðið hafa fyrir ofbeldi hafi aðgang að fjölþættri aðstoð, þar á meðal viðeigandi vernd, heilbrigðis-, sálfélagslegri og lögfræðiþjónustu á flóttamanna- og endurreisnarsvæðum 

 Afurð 2.1: Konur og stúlkur hafi betra aðgengi að efnahagslegum tækifærum í tengslum við endurreisn frá átökum 

 Afurð 2.2: Konur og stúlkur hafi aukin tækifæri til að taka með virkum hætti þátt í hindrun og úrlausn átaka 

 Afurð 3.1: Geta ráðuneytis jafnréttismála til að samræma, hafa eftirlit með framkvæmd aðgerðaáætlunar um 1325 og gera grein fyrir framvindu aukin 

 Afurð 3.2: Aukin innlend kunnátta og geta til að innleiða og skapa þekkingu á sviðinu Konur, friður og öryggi.   

Verkefnið hefst strax í þessari viku og lýkur í árslok 2020. Á fyrstu sex mánuðum verður safnað bakgrunnsupplýsingum, grunngildi mælikvarða ákvörðuð og nákvæmt umfang verkefnisins ákveðið ásamt sértækum markmiðum mælikvarða. Þar er gert ráð fyrir að UN Women njóti aðstoðar Eduardo Mondlane háskólans í Mósambík og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (UNU-GEST). 

Verkefnið samræmist vel áherslum þróunarsamvinnuáætlunar og hinum ýmsu jafnréttis- og mannréttindastefnum Íslands almennt. Verkefnið leggur sitt að mörkum til Heimsmarkmiða um sjálfbæra þróun, ekki síst til markmiðs nr. 5 um jafnrétti kynjanna og markmiðs nr. 16 um frið og réttlæti.                      

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum