Hoppa yfir valmynd
26.04. 2017

Styrkja þarf Alþjóðabankann fjárhagslega til að hann geti gegnt hlutverki sínu

VorfundurWB2017bStyrkja þarf Alþjóðabankann fjárhagslega til að hann geti gegnt hlutverki sínu, náð settum markmiðum og tekist á við þær áskoranir sem blasa við. Þetta var meðal þess sem fram kom á vorfundum Alþjóðabankans sem haldnir voru í síðustu viku og lauk með fundi þróunarnefndar bankans og Alþjóðagjaldeyris-sjóðsins á laugardag.

Þróunarnefndin mótar meginstefnu bankans og er skipuð ráðherrum 25 landa, en hún fundar tvisvar sinnum á ári. Ráðherrar í kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna skiptast á að sitja í nefndinni og Ulla Tørnæs þróunarmálaráðherra Danmerkur, situr í nefndinni þetta árið.  Utanríkisráðherra Íslands mun sitja í nefndinni fyrir hönd kjördæmisins árið 2019.

Á fundi þróunarnefndarinnar var farið yfir þrjú megin málefni: framvindu hvað varðar framtíðarsýn bankans (Forward Look), endurútreikning á hlutafjáreign aðildarríkja (Shareholding Review) og styrkingu bankans (A Stronger World Bank Group for All).

Forseti bankans lýsti yfir ánægju sinni með 18. endurfjármögnun Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA18) sem er nýlokið, en IDA er sú stofnun bankans sem veitir styrki og lán á hagkvæmum kjörum til fátækustu ríkjanna. Sagði hann niðurstöður samningaviðræðnanna
endurspegla sterkan stuðning við fjölþjóðlegt samstarf í þágu sjálfbærrar þróunar. Hann undirstrikaði jafnframt nauðsyn fjárhagslegrar styrkingar bankans (IBRD og IFC) og vísaði þá bæði til mögulegrar hlutafjáraukningar auk innri aðgerða til að losa um fjármagn, s.s. að draga úr rekstrarkostnaði og auka skilvirkni. Að lokum minnti hann á mikilvægi yfirstandandi vinnu við endurútreikning á hlutafjáreign ríkja. Þótt ljóst sé að hlutur sumra ríkja muni dragast saman séu allir sammála um tilganginn, eða að efla rödd þróunarríkja innan bankans.    

Í ræðu sinni ítrekaði fulltrúi kjördæmisins, Ulla Tørnæs, m.a. mikilvægi þess að takast á við loftslagsvandann og tryggja jafnrétti kynjanna, m.a. með stuðningi við kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi, enda hvort tveggja grundvöllur þess að ná megi Heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun. 

Meðan á vorfundum Alþjóðabankans stóð áttu fulltrúar Íslands margvíslega tvíhliða fundi og tóku þátt í fjölbreyttum viðburðum. Má þar nefna ráðherrafundum um málefni ungs fólks, mikilvægi félagslegra stuðningsneta, flóttamannavandann og um málefni fátækustu ríkjanna auk funda tengdum starfsemi Alþjóðaframfarastofnunarinnar og aukinni aðkomu einkageirans að uppbyggingu í þróunarríkjum. 

An Essential Role, a New Approach/ Alþjóðabankinn

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum