Hoppa yfir valmynd
26.04. 2017

Yfir þúsund flóttamenn hafa farist á Miðjarðarhafi frá áramótum

https://youtu.be/8NKJxcVlFRM Rúmlega eitt þúsund flóttamenn hafa drukknað á Miðjarðarhafinu það sem af er þessu ári. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur frá áramótum skráð 1,073 einstaklinga sem ýmist hafa drukknað eða er saknað á sjóleiðinni hættulegu á milli Líbíu og Ítalíu. Á síðasta ári var komið undir lok maímánaðar þegar dauðsföllin voru komin yfir þúsund.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segir að börn í þessum hópi séu að minnsta kosti 150 en líkast til séu börnin miklu fleiri sem hafa drukknað því algengt sé að dauðsföll foreldralausra barna séu ekki skráð. Breska dagblaðið Independent segir að hættan í þessum ferðum sé svo mikil að hælisleitendur á óöruggum bátkoppum skrifi símanúmer á björgunarvesti til að tryggja að aðstandendur fái að vita um örlög þeirra finnist sjórekið lík.                                    

Blaðið segir að 8,300 flóttamönnum hafi verið bjargað um páskahelgina og þeir hafi greint frá því að um eitt hundrað einstaklingar með þeim í för hafi dáið á leiðinni. Margir bátanna séu yfirfullir og fólk drukkni, kafni eða svelti til bana á leiðinni yfir hafið.

Batnandi veður og orðrómur um að líbanska landhelgisgæslan grípi senn til aðgerða gegn smyglurum í Líbíu leiða til þess að smyglarar hvetja nú sífellt fleiri til að leggja í hættuförina yfir hafið, segir í frétt Independent.
Blaðið segir líka frá því að nokkur borgarasamtök hafi vegna þess hræðilega ástands sem skapast hefur sent björgunarskip með heilbrigðisstarfsfólk og vistir á vettvang til viðbótar við aðgerðir Evrópusambandsins. Borgarasamtökunum hafi verið vel tekið af evrópskum stjórnvöldum en þau sæti gagnrýni frá öfga hægrisinnum og öðrum hópum sem ásaki þau um leynilegt samstarf við smyglara. 

Fulltrúi Lækna án landamæra sem eru með tvö skip á Miðjarðarhafi segir ásakanirnar byggðar á sandi. "Þetta eru fáránlegar ásakanir settar fram til að draga athyglina frá raunverulega vandanum," hefur blaðið eftir Stefano Argenziano hjá Læknum án landamæra.                                    

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum