Hoppa yfir valmynd
03.05. 2017

Alþjóðabankinn: lykilstofnun í fjölþjóðlegu samstarfi í þágu sjálfbærrar þróunar

ImagesAlþjóðabankinn var settur var fót í kjölfar hörmunga síðari heimstyrjaldarinnar en stofnun hans var undirbúin á ráðstefnu í Bretton Woods í New Hampshire árið 1944. Tilgangur ráðstefnunnar var að greiða fyrir efnahagslegri endurreisn Evrópu og Japan og ásamt því að stuðla að aukinni samvinnu ríkja á milli.  Ísland var stofnaðili að Alþjóðabankanum líkt og að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þáðu íslensk stjórnvöld lán frá Alþjóðabankanum á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar til styrkingu innviða á Íslandi (meðal annars á sviði landbúnaðar og hitaveituframkvæmda).

Alþjóðabankinn (World Bank Group) samanstendur í dag af fimm stofnunum en hver þeirra gegnir sérstöku og afmörkuðu hlutverki í baráttunni gegn fátækt og bættum lífskjörum á alþjóðavísu. Þetta eru:
- Alþjóðabanki til enduruppbyggingar og framþróunar (International Bank for Reconstruction and Development, IBRD),- Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association, IDA),- Alþjóðalánastofnunin (International Finance Cooperation, IFC),- Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency, MIGA) og- Alþjóðastofnun um lausn fjárfestingardeilna (International Center for Settlement of Investment Disputes, ICSID).
Í dag eru aðildarríki Alþjóðabankans 189 talsins. Höfuðstöðvar Alþjóðabankans eru í Washington D.C. en um það bil helmingur starfsmanna bankans er staðsettur í þróunarlöndunum.

https://youtu.be/xthqiXRf1zU Alþjóðabankinn er lykilstofnun í fjölþjóðlegu samstarfi í þágu sjálfbærrar þróunar en hann er einn helsti fjármögnunaraðili fátækustu þróunarlandanna. Áherslur hans hafa tekið breytingum í tímans rás en með nokkurri einföldun má segja að meginverkefni Alþjóðabankans í dag sé að stuðla að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu þróunarlandanna - að útrýma sárafátækt í heiminum.

Alþjóðabankinn veitir þróunarríkjum margþætta aðstoð í formi lána á lágum vaxtakjörum, styrkja og ráðgjafar. Lánveitingar og styrkir Alþjóðabankans eru meðal annars á sviði styrkingar innviða, menntamála, félagslegra stuðningsneta, heilbrigðisþjónustu, umbóta á samgöngukerfum, aðgerða í þágu bættrar stjórnsýslu, umbóta í landbúnaði ásamt því að styðja aukna aðkomu einkageirans að fjármögnun þróunar og uppbyggingu í þróunarlöndunum svo að dæmi séu nefnd.

Stigvaxandi alþjóðavæðing efnahagskerfa heimsins hefur á undanförnum árum leitt til áherslubreytinga innan Alþjóðabankans sem miða að því að stofnunin geti betur brugðist við áskorunum líðandi stundar og náð settum markmiðum. Núverandi forseti Alþjóðabankans, sem kemur frá Bandaríkjunum, Dr. Jim Kim, hefur þannig lagt ríka áherslu á að Alþjóðabankinn verði í auknum mæli lausnamiðaður, praktískur og skilvirkur í starfi sínu við að styrkja innviði í þróunarlöndunum og að tryggja sjálfbæran hagvöxt í sessi til lengri tíma. Alþjóðabankinn sé alþjóðleg lausnaveita fyrir styrkingu innviða í þróunarlöndunum.

Styrkileiki Alþjóðabankans að þróa lausnir

Styrkleiki Alþjóðabankans felst meðal annars í getu hans til að þróa lausnir til að koma til móts við þarfir þróunarlandanna og þær áskoranir sem þau þurfa að takast á við að tryggja þegnum sínum bætt lífskjör. Þetta starf byggir á traustum grunni þeirrar gífurlegu uppsöfnuðu reynslu og sérþekkingar sem í bankanum býr. Nefna má að heildarlánveitingar bankans hafa farið vaxandi undanfarin ár en eftirspurn eftir lánum og sérfræðiþekkingu Alþjóðabankans hefur sjaldan verið meiri. Hér gegnir sú tæknilega aðstoð til handa þróunarlöndum sem fylgir lánveitingum frá Alþjóðabankanum afar þýðingarmiklu hlutverki og má telja einn helsta styrkleika hans.

Á vorfundi Alþjóðabankans í apríl síðastliðnum var áréttað að styrkja þurfi bankann enn frekar fjárhagslega til að hann geti gegnt hlutverki sínu og tekist á við þær áskoranir sem blasa við. Rík áhersla var á að efla hlutverk einkageirans í fjármögnun þróunarverkefna til að skapa ný störf og leggja grunn að auknum hagvexti til framtíðar, ekki síst í Afríku. Í því samhengi gegnir Alþjóðalánastofnunin, IFC, lykilhlutverki innan Alþjóðabankahópsins.

En nánar um skilgreind markmið Alþjóðabankans. Á ársfundi bankans árið 2013 varð samkomulag um að endurskilgreina markmið hans sem eru nú eftirfarandi:

Binda enda á sárafátækt í heiminum þ.e. að hlutfall heimsbyggðar sem lifir á minna en 1.25 bandaríkjadölum á dag verði lækkað í 3% árið 2030.

Stuðla að aukinni hagsæld og velmegun fyrir þá fátækustu (e. Promote shared prosperity) - þ.e. að hlutfallslega meiri tekjuhækkun verði á meðal þeirra 40% sem eru hvað fátækastir í þróunarlöndunum.

Auk samþykktar ofangreindra meginmarkmiða áttu sér stað skipulagsbreytingar innan bankans og margvíslegar endurbætur á innri verkferlum í því skyni að gera starf hans hnitmiðaðra og skilvirkara auk þess að minnka skrifræði og tilkostnað. Breytingarnar miða að því að gera bankann árangursmiðaðri og afkastameiri.

Samstarf við fjölþjóðlegar fjármálastofnanir og Sameinuðu þjóðirnar

Ofangreind markmið Alþjóðabankans eru afar metnaðarfull og njóta víðtæks stuðnings allra aðildarríkja hans.  Ljóst er þó að þeim verður ekki náð nema með nánu samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og aðrar fjölþjóðlegar fjármálastofnanir sem sinna þróun og fjármögnun innviðauppbyggingar í þróunarlöndunum.

Skilvirk samvinna Alþjóðabankans við Innviðafjárfestingarbanka Asíu (Asian Infrastructure Investment Bank, AIIB) sem stofnaður var árið 2015 er afar þýðingarmikil. Mikilvæg skref voru stigin í þessa átt á vorfundi Alþjóðabankans í apríl sl. með undirritun viljayfirlýsingar um aukið og dýpkað samstarf bankanna vegna verkefnaþróunar. Þegar þetta er ritað hafa verið samþykkt fimm sameiginlega fjármögnuð þróunarverkefni bankanna beggja í Pakistan, Aserbaídsjan og Indónesíu.

Náið samstarf Alþjóðabankans við stofnanir Sameinuðu þjóðanna er mikilvægur þáttur í starfi bankans á sviði þróunarmála og órjúfanlegur hluti af samþykktri framtíðarsýn bankans (Forward Look). Hér liggja Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarmarkmiðin til grundvallar og þar er fullur samhljómur með markmiðum bankans.

Þegar litið er til samvinnu Alþjóðabankans og stofnana Sameinuðu þjóðanna þá hefur hún á undanförnum árum farið stigvaxandi á fjöldamörgum áherslusviðum. Hún hefur jafnframt orðið dýpri, hagnýtari og skilvirkari. Alþjóðabankinn hefur lagt áherslu nýta styrkleika sína er byggja á sérfræðiþekkingu, rannsóknar- og greiningarvinnu,  magni lánveitinga ásamt vogarafli hans til að koma aðilum að borðinu. Skilvirkt samstarf stofnananna í þróunarlöndunum er nauðsynlegt  til að tryggja betri árangur þeirra á vettvangi og koma í veg fyrir mögulega samkeppni og tvíverknað.

Áhersla á samvirkni og tengsl þróunar- og neyðaraðstoðar

Dæmi um málefnasvið sem eru áberandi í umræðu innan Alþjóðabankans og vitna um lausnamiðaða nálgun, aukna samvinnu við kerfi Sameinuðu þjóðanna og samvirkni þróunar- og mannúðaraðstoðar, eru aðgerðir Alþjóðabankans til að efla framlag sitt til að tryggja stöðugleika í fátækum og óstöðugum ríkjum, aukin aðstoð vegna flóttamannavandans í heiminum og á sviði mannúðaraðstoðar líkt og í tilfelli ebólu-faraldursins.

Á þessum sviðum leggur bankinn áherslu á að nýta sérþekkingu sína, rannsóknar- og greiningargetu og fjárhagslegt bolmagn í náinni samvinnu við viðeigandi stofnanir Sameinuðu þjóðanna - undirbyggja og styðja starfsemi þeirra, þróa ný úrræði, án þess að til tvíverknaðar komi. 
Alþjóðabankinn leggur þannig áherslu á samvirkni þróunar- og neyðaraðstoðar til að takast á með fyrirbyggjandi hætti við þau verkefni sem skapast á hvoru sviði fyrir sig. Ekki sé hægt að líta þessa málaflokka sem aðskilda. Átjánda endurfjármögnun Alþjóðaframfarastofnunar, IDA, sem samþykkt var í desember sl. gegnir hér mikilvægu hlutverki en IDA er sú stofnun bankans sem vinnur með fátækustu ríkjunum, veitir þeim styrki og lán. Þar var framlag Alþjóðabankans til óstöðugra ríkja og flóttamannavandans í heiminum aukið verulega, auk þess sem lögð var áhersla á loftlagsbreytingar, jafnrétti kynjanna, atvinnumál og hagþróun ásamt stjórnsýslu og stofnanir. Lögð er áhersla á að nýta með skipulagðari og skilvirkari hætti sérþekkingu og landaskrifstofur Alþjóðabankans í óstöðugum ríkjum í nánu samstarfi við viðeigandi stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

Þegar kemur að viðbrögðum við flóttamannavandanum í heimunum leggur Alþjóðabankinn áherslu á rannsóknir, kerfisbundna söfnun og greiningu upplýsinga um ástæður og þróun vandans auk þess að veita ríkjum ráðgjöf um úrræði sem og að veita fjármagni til aðstoðar við flóttamenn í móttökulöndum. Alþjóðabankinn hefur þannig í stefnuáætlun sinni gagnvart Mið-Austurlöndum þróað hugvitsamleg fjármögnunartæki (WBG Global Concessional Facility) til að aðstoða stjórnvöld í Jórdaníu og Líbanon við að hýsa og mennta flóttamenn frá Sýrlandi en þessi ríki hafa ekki verið í aðstöðu til að taka lán á markaðsvöxtum til að fjármagna aðstoð við flóttamenn. Við þróun slíkra úrræða vinnur Alþjóðabankinn í náinni samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR).

Á sviði mannúðar- og neyðaraðstoðar hefur Alþjóðabankinn á þessu ári varið 1.6 milljörðum bandaríkjadala til stuðnings við aðgerðir Sameinuðu þjóðanna til að stemma stigu við hungursneyð í Austur-Afríku og Jemen. Einnig ber að nefna sértækt starf bankans að fjármögnun vegna hættulegra faraldra og heilbrigðisógna í þróunarlöndunum. Vinna er í undirbúningi sem miðar að því að gera bankanum kleift að veita fjármagn með skjótvirkari hætti til neyðarsvæða blasi alvarlegur faraldur við í þróunarlöndunum.

Alþjóðabankinn gegndi þannig mikilvægu stuðningshlutverki í fjármögnun aðgerða alþjóðasamfélagsins gegn ebólu-faraldrinum sem kostaði þúsundir mannslífa og lamaði efnahags- og atvinnulíf í Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu. Alþjóðabankinn varði meira en milljarði Bandaríkjadala úr neyðarsjóðum bankans til að stemma stigu við útbreiðslu  ebólu, með því að styðja við og undirbyggja aðgerðir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) gegn ebólu.

Áherslur Íslands innan Alþjóðabankans

Alþjóðabankinn er ein af fjórum áherslustofnunum Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Ísland hefur ávallt tekið virkan þátt í stefnumótun bankans með reglulegri stjórnarsetu og þátttöku í starfi kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í bankanum. Í hnotskurn má segja að Ísland hafi lagt áherslu á jarðhita, fiskimál, jafnréttis- og mannréttindamál og veitt eru framlög til sjóða innan bankans á þessum sviðum.

Ísland og Alþjóðabankinn hafa átt farsælt samstarf í jarðhitamálum um nokkurt skeið og beitt sér fyrir því að bankinn hefur gert stuðning við jarðhitanýtingu að forgangsverkefni. Ísland er virkur þátttakandi í ESMAP verkefninu (Energy Sector Management Program) sem hefur það hlutverk að veita þróunarríkjum tæknilega ráðgjöf á sviði orkumála.
Ísland leggur ríka áherslu á jafnréttismál í allri starfsemi Alþjóðabankans og til að styðja framgang þeirra hefur Ísland veitt framlög til verkefnis um kynjajafnrétti og málefni kvenna (UFGE). Meginmarkmið þess er að auka þekkingu á jafnréttismálum innan bankans og efla samþættingu jafnréttissjónamiða í verkefnum á hans vegum.

Að síðustu má nefna áherslur Íslands á sviði fiskimála í því skyni að styrkja sjálfbæra fiskveiðistjórnun, vinna að efnahagslegum og félagslegum framförum, byggja upp fiskistofna og auka afrakstur þeirra. Nánari umfjöllun um áherslur Íslands innan Alþjóðabankans má finna í Heimsljósi 22. febrúar síðastliðinn.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum