Hoppa yfir valmynd
03.05. 2017

Íslenskir sálfræðingar til Bidibidi

Sendifulltruar-i-Uganda-april-2017Þrír sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi fóru til Úganda í lok aprílmánaðar, sálfræðingarnir Jóhann Thoroddsen, Elín Jónsdóttir og Matthías Matthíasson. 

Þau munu þjálfa sjálfboðaliða og starfsfólk Rauða krossins í Úganda í sálrænum stuðningi og viðbrögðum við áföllum vegna mikils fjölda flóttamanna sem leitað hefur skjóls í landinu undanfarna mánuði.

Flóttafólk frá Suður-Súdan auk annarra landa hefur streymt til Úganda vegna átaka og fæðuskorts og flóttamannasamfélög hafa verið reist á nokkrum stöðum í Yumbe héraði, m.a. í Bidibidi í þar sem sendifulltrúarnir verða við störf. Það fylgir því gríðarlegt andlegt álag að flýja heimili sitt, jafnvel eftir átök, hungur, missi ástvina og búa í flóttamannasamfélögum í nýju landi. "Sendifulltrúunum er ætlað að leiðbeina starfsfólki og sjálfboðaliðum við að styðja við fórnarlömb og þolendur og takast á við erfiðar aðstæður í kjölfar flóttans og svo nýrra aðstæðna," eins og segir frétt frá Rauða krossinum á Íslandi.

Með stuðningi utanríkisráðuneytisins hefur Rauði krossinn á Íslandi styrkt Rauða krossinn í Úganda við að taka á móti hundruðum þúsunda flóttamanna í samvinnu við stjórnvöld og aðra aðila. Eitt af því sem Rauði krossinn gerir er að framleiða gríðarlegt magn af drykkjarvatni fyrir flóttafólkið, meðal annars með því að dæla því upp úr ánni Níl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum