Hoppa yfir valmynd
24.05. 2017

Átján nemendur útskrifast frá Jafnréttisskólanum - fjölmennasti hópurinn frá upphafi

GestutskriftÍ gær útskrifuðust átján nemendur með diplómagráðu í alþjóðlegum jafnréttisfræðum frá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Þetta er fjölmennasti hópur nemenda sem skólinn útskrifar. Nemendurnir komu frá 12 löndum, Afganistan, Eþíópíu, Írak, Jamaíka, Líbanon, Malaví, Mósambík, Nígeríu, Palestínu, Sómalíu, Túnis og Úganda. Á þeim níu árum sem Jafnréttisskólinn hefur starfað hefur hann útskrifað 86 nemendur.

Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins flutti ávarp við útskriftina í gær og sagði að ef fram færi sem horfi verði jafnrétti kynjanna náð árið 2133. "Við verðum að gera betur en svo," sagði hann. "Við þurfum að ná til fleiri aðila og haghafa, þar á meðal karlmanna, til að hraða jafnrétti kynjanna. Með því að vinna samhent að verkefninu náum við betri, fljótari og varanlegri lausnum", sagði Stefán Haukur og vakti athygli á árangri Íslands á sviði jafnréttismála á alþjóðlegum vettvangi, m.a. í gegnum Rakarastofu-ráðstefnur þar sem karlmönnum gefst færi á að ræða og skiptast á skoðunum um jafnréttismál.

Stefán Haukur nefndi í ávarpi sínu að skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi kynnu að vera smáir í alþjóðlegum samanburði og sagði þá hafa verið og halda áfram að vera stoðir alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands.

Markmið Jafnréttisskólans er að veita sérfræðingum frá þróunarríkjum, átakasvæðum og fyrrverandi átakasvæðum þjálfun á sérsviði sínu og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum. Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Eliza Jean Reid forsetafrú ávörpuðu einnig útskriftarnemana, auk Irmu Erlingsdóttur forstöðumanns Jafnréttisskólans og Caroline Kalagala Kanyago frá Úganda sem talaði fyrir hönd útskriftarnema.

https://youtu.be/9NJsVQaEm7U

Eliza afhenti verðlaun Vigdísar Finnbogadóttur fyrir framúrskarandi lokaverkefni nemenda. Að þessu sinni hlaut Yeshiwas Degu Belay verðlaunin fyrir rannsókn á þátttöku kvenna í eþíópískum friðargæsluverkefnum.

Upplýsingar um lokaverkefni útskriftarnema má finna á vef skólans. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum