Hoppa yfir valmynd
24.05. 2017

Kyngreining starfsemi WFP í Jemen

Mohammed_hamoud_007Í þessari grein hyggst ég segja frá áhugaverðasta og jafnframt erfiðasta verkefninu sem ég vann á meðan ég starfaði sem jafnréttisráðgjafi á Svæðisskrifstofu Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Sþ) (e. World Food Programme (UN WFP)) í Kairó, frá nóvember 2016 til maí 2017, en ég var þar í láni frá Íslensku friðargæslunni (e. stand by partner). Verkefni þetta fólst í því að kynjagreina starfsemi WFP í hinu stríðshrjáða Jemen og kanna hvernig kynjabreytan (kynjamisrétti) hefur áhrif á mataröryggi og næringu (e. Food and nutrition security (FNS)) landsmanna og þar með hvort WFP þjóni öllum jafnt; konum, körlum, stelpum og strákum. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði það komið í hlut landsskrifstofunnar að sinna því verki eins og skýrt er kveðið á um í jafnréttisstefnu WFP (Gender Policy 2015 - 2020) en sökum ástandsins var ég fengin í verkið. Nánar tiltekið til að vinna forvinnuna fyrir kynjaða aðgerðaráætlun landsskrifstofunnar í Jemen (e. Country Office Gender Action Plan). 

Ég fékk þetta verkefni í hendur eftir að hafa unnið þar í hálfan annan mánuð. Ég var hæstánægð, því mér fannst ég loks hafa fengið  tækifæri til að láta ljós mitt skína. Fram að þessu hafði mér fundist ég hafa lítið fram að færa, enda nýgræðingur, reynslulaus á sviði mannúðarmála og með afar takmarkaða þekkingu á WFP, en kynjafræðina þóttist ég kunna! Eftir að hafa viðað að mér bunkum af lesefni um ástand mannúðarmála í Jemen, og um yfirgripsmika starfsemi WFP síðustu árin fóru að renna á mig tvær grímur og nýendurheimta sjálfsöryggið fór veg allrar veraldar. Ég áttaði mig á því að til að geta kynjagreint ástandið yrði ég að skilja og hafa vit á ýmsum þáttum. Allt frá flutningamálum (e. logistics), skilgreiningum á ólíkum stigum neyðarástands (Phases 3, 4 and 5) svo og mataróöryggi (FNS) og vannæringu (e. malnutrition), að ógleymdri hugtaka- og skammstöfunarsúpu sem ég var tilneydd til að hafa á takteinum (s.s. EMOP, PRRO, FSN, IPC, VAM, EFSNA, GAM, SAM, MAM, GIH!). En nóg af hugarangist og sjálfsvorkunn þarna á fyrstu vikunum í Kairó. Ný skyldi ég reyna að gera gagn á nýja vinnustaðnum. 

Jemen: Versti staður að vera kona

Óhætt er að fullyrða að ástandið í Jemen sé hörmulegt enda landið á barmi hungursneyðar samkvæmt Sþ (e. Phase 5, Famine). Ástandið fer síversnandi og hefur áhrif á alla landsmenn og tækifæra þeirra til að afla lífsviðurværis (e. Livelihood). Þó er ástandið verst hjá kynsystrum mínum sem að auki þurfa að þola afturhaldssamt feðraveldi í menningu sem byggir á íhalds- og kvenfjandsamlegri túlkun á Íslam. Jemen er versti staður heims til að vera kona samkvæmt Gender Global Index, árið 2015 í 144. sæti af 144 sætum alls, staða sem Jemen hefur haldið óbreyttri um árabil. Börn, minnihlutahópar, innflytjendur og flóttamenn eiga einnig undir högg að sækja.

Allt frá því að allsherjar stríðsátök brutust út í Jemen við innrás Sádí Arabíu og bandalagsins í mars 2015 hefur ástandið hríðversnað en þar áður hafði þegar ríkt neyðarástand, m.a. vegna viðvarandi fátæktar og vanþróunar, svæðisbundinna átaka, veiks réttarkerfis og margs konar mannréttindabrota. Jemen var þegar í 8. sæti yfir þau lönd sem ríkir mesta mataróöryggi heims samkvæmt Global Hunger Index. Í október 2015 þótti WFP ljóst að breyta yrði áherslum í neyðaraðstoð eingöngu (Emergency Operation (EMOP)). Nú yrði að leggja kapp á að bjarga mannslífum og lífsviðurværi (e. Objective 1) og ekki lengur möguleiki að sinna öðrum verkefnum. 

Í dag er talið að af 27.4 milljónum landsmanna búi 17.1 milljón við mataróöryggi og þar af 7.3 milljónir við alvarlegt mataróöryggi (e. severe food insecurity) og vannæring á meðal barna ein sú mesta í heiminum. Alls 3.3 milljónir landsmanna þjást af vannæringu og er stærstur hluti þeirra konur og börn. Segja má að Jemen sé í lamasessi. Fjöldi stofnana lokaðar og þjónusta við borgarana nær engin. Skólar og spítalar lokaðir og fáir dómstólar virkir. Innflutningur matar og nauðsynja gengur erfiðlega, bæði vegna hruns gjaldmiðilsins og eyðileggingar á helstu samgönguæðum, einkum hafna sem hafa verið eyðilagðar af stríðandi fylkingum. Þær gera WFP og annarra stofnana lífið leitt og koma í veg fyrir að þær geti sinnst skyldum sínum, m.a. með að stöðva bílalestir með mat og nauðsynjar, handtaka starfsmenn Sþ og koma í veg fyrir að Jemenar geti sótt sér aðstoð. Sífellt fleiri Jemenar þrauka vegna mannúðaraðstoðar með hagkerfi í molum og skert tækifæri til að  afla sér lífsviðurværis. Yfir tvær milljónir manna eru nú á vergangi innan landmæra Jemen (e. Internally displaced people (IDPs)) og eiga konur á hættu að vera hlunnfarnar, einkum einstæðar mæður sem hafa enga vernd karlkyns ættingja (eiginmanns, föður, bróður) og þær konur sem tilheyra minnihlutahópum og búa í bráðabirgðaflóttamannabúðum. 

Ástandið bitnar illa á konum eins og gefur að skilja í ljósi landlægrar kvenfyrirlitningar. Fullyrt er að tíðni kynferðisbrota á konum hafi aukist eftir að stríðsátök hófust fyrir rúmum tveimur árum. Einnig giftingar á stúlkubörnum og fjölkvæni. Konur hafa enn takmarkaðri möguleika á að afla sér lífsviðurværis og lágt hlutfall auðlinda í þeirra eigu, sem skýrir varnarleysi þeirra þegar kemur að vannæringu. Í jemensku stjórnarskrá eru konur ekki lögráða þær eru skilgreindar sem "systur karlmanna" (e. sisters of men) en ekki sjálfstæðar persónur. Eins og gefur að skilja hefur það áhrif á allt lífshlaup þeirra og hamlar frelsi að öllu leyti en til að komast á milli staða, sækja um nám eða vinnu eða leita sér læknisaðstoðar þarf nákominn ættingi að vera með í för eða samþykkja. 

Ljóst er að verkefnið neyddi mig til þess að læra heil ósköp á stuttum tíma og brátt jókst sjálfstraustið þegar hlutir skýrðust. Ég áttaði mig loks á hlutverki hinnar risavöxnu maskínu Sþ og þá einkum umboðsstofnunar minnar WFP til að berjast gegn hungri í heimum. Í því samhengi skipti ég og mitt viðkvæma egó engu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum