Hoppa yfir valmynd
24.05. 2017

Námskeiðahald í Úganda um loftslagsbreytingar og landnýtingu

Malthingharpalrs"Það er spennandi að fara inn á þessar nýju brautir og halda námskeið í Úganda," segir Hafdís Hanna Ægisdóttir forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna en hún greindi frá því á málþingi í Hörpu í síðustu viku að í september á þessu ári verði haldið níu daga námskeið í Úganda um loftslagsbreytingar og landnýtingu.

Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur unnið með Úganda í tíu ár og sautján nemendur hafa sótt sex mánaða námskeið skólans á þeim tíma. Helstu samstarfsaðilar Landgræðsluskólans í Úganda eru Makarere háskólinn og Umhverfisstofnun Úganda (NEMA).

Námskeiðið verður haldið í samstarfi við samstarfsstofnanir skólans og umhverfisfulltrúar héraðsstjórna verða sérstaklega boðnir á námskeiðið en allmargir þeirra eru fyrrverandi nemendur skólans.

https://youtu.be/tRQnvaJ7EgY
Á málþinginu var Jerome Lugumira aðalfyrirlesari en hann er jarðvegsfræðingur við Umhverfisstofnun Úganda. Hann fjallaði um áhrif loftlagsbreytinga á ræktarland og þær áskornir sem heimamenn standa frammi fyrir við að framfylgja þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa sett til að takast á við þessa nýju ógn. "Við höfum fengið að kenna á umfangsmiklum og skæðum þurrkum í norðurhluta landsins með alvarlegum afleiðingum fyrir búfjárrækt. Það bitnar illilega á samfélögunum, fólk missir mjólkina sem það hafði, það missir tekjur og þurrkarnir hafa margvíslegar aðrar afleiðingar fyrir íbúa á þessum svæðum," segir Jerome.

Breytingar á veðurfari

Regntímabil í Úganda hafa jafnan verið í desember til febrúar og svo aftur í júní til ágúst. Á síðustu árum hefur orðið breyting á veðurfarinu, regntímabilið hefst ýmist síðar en venjulega eða fyrr, þurrkar verða skæðari og langvinnari með uppskerubresti og hungursneyð. Fram kom í erindi Jerome að í janúar á þessu ári þurftu 9 milljónir íbúa Úganda á matvælaaðstoð að halda samanborið við 1,2 milljónir haustið 2016. Verst er ástandið í Karamajo héraði og þar hafa hirðingjar farið um langan veg í leit að haga fyrir skepnurnar og margir misst nautgripi af völdum þurrkana.

Jerome segir að öfgarnar í veðurfari lýsi sér ennfremur í miklum og mannskæðum flóðum. Hann birti tölur á málþinginu sem sýndu að rúmlega 1500 manns hafa farist vegna flóða á síðustu árum, 11 þúsund látist úr kóleru og 150 þúsund manns hafi misst heimili sín og farið á vergang. Þá hafa loftslagsbreytingarnar haft áhrif á gróðurfar og matvælaframleiðslu með til dæmis aukinni sýkingu í plöntum. Einnig hafi orðið vart við fjölgun sýkinga í dýrum, malaríutilvikum hafi fjölgað og margvísleg neikvæð áhrif séu sýnileg á vistkerfin.

Jerome segir að stefnumörkun af hálfu stjórnvalda til að bregðast við loftslagsbreytingum sé töluverð og hann nefnir mikilvægi þess að viðbrögðin nái til aðgerðaáætlana á öllum sviðum umhverfismála um land allt. Hann segir mikla samvinnu á þessum sviðum við fræðastofnanir, ekki síst Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem hafi tekið á móti mörgum nemendum frá Úganda og aðspurður kveðst hann afar spenntur fyrir námskeiðinu sem ákveðið hefur verið að halda í heimalandi hans í haust.

Evelyn Mugume er einn af fyrrverandi nemendum skólans en hún starfar sem umhverfisfræðingur í Úganda. Hún segir að þekkingin sem hún hafi öðlast í náminu á Íslandi hafi nýst mjög vel í heimahéraði hennar, Kasese, þar sem hún hefur hafið samstarf við heimafólk um viðbrögð við þeim ógnum sem stafa af loftslagsbreytingum og hvernig unnt sé að bæta landnýtingu, til dæmis með skógrækt. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum