Hoppa yfir valmynd
24.05. 2017

Sérþekking Íslendinga og samvinna við einkafyrirtæki og atvinnulíf

Gudlaugur-skorinGuðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra leggur áherslu á tvennt í  þróunarsamvinnu. "Annars vegar að við vinnum á þeim vettvangi þar sem við höfum meira og betra fram að færa en aðrir. Þannig nýtist sérþekking Íslendinga best í aðstoð og samvinnu við þróunarríkin. Á þetta einkum við um sérþekkingu í fiskveiðum og sjávarútvegi annars vegar og nýtingu jarðvarma hins vegar. Þegar er komin góð reynsla á starf okkar á þessum sviðum í þróunarlöndunum sem hvetur okkur til dáða frekar. Munum við starfa að þessu ýmist tvíhliða með samstarfsríkjum og í samvinnu við viðkomandi fjölþjóðastofnanir, eins og Matvæla- og landbúnaðarstofnunina og Alþjóðabankann. Hins vegar er mikil þörf á því að skoða alla möguleika á samvinnu við einkafyrirtæki og atvinnulífið um þróunarverkefni þar sem það er hægt, auk áframhaldandi góðrar samvinnu við frjáls félagasamtök."

Framlogislands2016

Ráðherra sagði á Alþingi þegar hann gaf þinginu skýrslu um utanríkismál að ljóst væri að opinbert fjármagn nægi ekki til að ná heimsmarkmiðunum. "Einkafjármagn þarf til," sagði hann. "Flest helstu framlagaríki og fjölþjóðastofnanir í þróunarsamvinnu hafa nú innan sinna vébanda virkar starfseiningar sem sinna samvinnu við atvinnulífið og einkafyrirtæki. Huga þarf að myndun slíkrar einingar í þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins sem eigi gott samstarf við viðskiptaþjónustu ráðuneytisins og Íslandsstofu og njóti þekkingar þessara aðila og sambanda þeirra við atvinnulífið."

Heimsmarkmiðin leiðarljós

Heimsmarkmidin2Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands. Í skýrslu ráðherra kom fram að hin metnaðarfullu markmið, sem eru 17 talsins, beinist hvort tveggja að innanlandsstarfi og starfi Íslands á alþjóðavettvangi. "Íslensk stjórnvöld hafa það að yfirmarkmiði að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli kynjajafnréttis, mannréttinda og sjálfbærrar þróunar. Heimsmarkmiðin eru einnig leiðarljós að meginmarkmiðum þróunarsamvinnunnar: Að bæta lífsskilyrði og auka tækifæri fólks með sterkari félagslegum innviðum, með jafnrétti að leiðarljósi, að bæta fæðuöryggi og örva hagþróun á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar, að auka viðnámsþrótt samfélaga og flýta endurreisn með aukinni samhæfingu mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu.

Ný þróunarsamvinnuáætlun

Í skýrslunni var greint frá því að unnið sé að mótun nýrrar stefnu stjórnvalda á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu fyrir tímabilið 2017-2021, sem lögð verði fyrir Alþingi, ásamt aðgerðaráætlun fyrir árin 2017-2018. Þá kom einnig fram að framkvæmd hafi verið fyrsta jafningjarýni um íslenska þróunarsamvinnu á vegum þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC). Jafningjarýni er fastur liður í störfum nefndarinnar, unnin af fulltrúum tveggja aðildarríkja, ásamt starfsmönnum DAC.Í skýrslunni segir ennfremur:

"Á síðustu árum hefur þróunarsamvinna Íslands haft þrjú áherslusvið: Uppbygging félagslegra innviða, bætt stjórnarfar og endurreisn og sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Tvö málefni hafa verið þverlæg: Jafnrétti kynjanna og umhverfismál. Starfað hefur verið í Afríku í Malaví, Mósambík og Úganda, og auk í Afganistan og Palestínu þar sem stuðningi var beint í gegnum fjölþjóðastofnanir og borgarasamtök. Fjölþjóðlegar áherslustofnanir hafa verið eftirfarandi: Alþjóðabankinn, Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), Barnahjálp SÞ (UNICEF) og Háskólar Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) og í mannúðaraðstoð: Matvælaáætlun SÞ (WFP), Neyðarsjóður SÞ (CERF) og Samræmingarskrifstofa SÞ í mannúðarmálum (OCHA).

Íslenska friðargæslan

Árið 2016 voru 15 ár liðin frá stofnun Íslensku friðargæslunnar sem starfar samkvæmt lögum 73/2007. Umfangsmesta verkefni Friðargæslunnar var þátttaka í aðgerðum alþjóðasamfélagsins (ISAF) í Afganistan 2002-2014. Á síðasta ári voru 20 einstaklingar í verkefnum á vegum Friðargæslunnar, þar af tólf konur og átta karlar. "Miklar breytingar og þróun hafa átt sér stað í hinu alþjóðlega umhverfi og er mikilvægt að starf Friðargæslunnar taki mið af því og þjóni áfram framgangi utanríkisstefnunnar. 

Neyðar- og mannúðaraðstoð 

Ísland hefur lagt umtalsvert fé til mannúðarstarfs á síðustu misserum. Þörfin fyrir mannúðaraðstoð hefur aldrei verið meiri en í dag, enda hefur aldrei verið jafnmikill fjöldi fólks í heiminum á flótta, flestir vegna langvarandi stríðsátaka, ofbeldis og ofsókna. Um síðustu áramót var áætlað að 65 milljónir manna væru á flótta í heiminum. Þessi mikla fjölgun flóttafólks síðustu ár hefur m.a. átt þátt í að auka straum þess til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. Eina leiðin til að stöðva þennan straum flóttafólks, sem langflest er frá óstöðugum svæðum í Mið-Austurlöndum, Afríku og Mið-Asíu, er að binda enda á drifkraftana sem knýr fólkið áfram, hvort sem það er stríð, hungursneyð eða almenn fátækt. Heimsmarkmiðin byggja á þeirri forsendu að friður og sjálfbær þróun séu órjúfanlega tengd, enda er 16. markmiðið helgað friðarmálum og réttarríkinu."

Markmið í þróunarmálum

Samkvæmt skýrslunni eru þrjú meginmarkmið í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands:

1: Bæta lífsskilyrði og auka tækifæri fólks með sterkari félagslegum innviðum, með jafnrétti að leiðarljósi.2: Bæta fæðuöryggi og örva hagþróun á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar m.a. með nýtingu á íslenskri sérþekkingu.3: Auka viðnámsþrótt samfélaga og flýta endurreisn með aukinni samhæfingu mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu.

Úrdráttur úr skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis 2017 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum