Hoppa yfir valmynd
24.05. 2017

Verkefnið í Sambesíu komið á fulla ferð eftir tafir á síðasta ári

https://youtu.be/KvzjOuWCJs4 Eftir nokkrar tafir á framkvæmdum á síðasta ári í Sambesíufylki í Mósambík er verkefni UNICEF sem Íslendingar styðja myndarlega komið á fulla ferð að nýju í sex héruðum: Gurué, Gilé, Milange, Molumbo, Mulevala og Pebane. Í meðfylgjandi kvikmyndabroti er rætt við Americo Muianga verkefnisstjóra UNICEF í Mósambík en hann var tekinn tali í Mapútó, höfuðborg Mósambík, í síðustu viku.

Íslensk stjórnvöld ákváðu árið 2014 að taka þátt í metnaðarfullu verkefni Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, í Mósambík, sem þá var að hefjast í Sambesíufylki. Íslendingar hafa síðan verið stærsti einstaki veitandinn sem styður verkefnið og utanríkisráðuneytið leggur til eina milljón bandarískra dala árlega. Sjálft verkefnið snýr að vatni, salernisaðstöðu og hreinlæti, og nær bæði til þorpa í Sambesíu og skóla, alls sex héraða. Mikið og náið samstarf er við heimafólk, bæði fylkisstjórn og héraðsstjórnir.

Americo Muianga verkefnastjóri segir að frá árinu 2014 hafi verið reist 182 vatnsból í héruðunum sex sem þjóni rúmlega 44 þúsund íbúum, bæði í þorpum og skólum. Hann segir að byggð hafi verið 46 náðhús við skóla en um er að ræða staðlaða kynskipta salernisaðstöðu og skólarnir sem fengu slíka aðstöðu eru því 23 talsins, alls 80 þúsund nemendur og kennarar.

Americo segir að þjálfun og fræðsla til heimamanna sé veigamikill verkefnisþáttur og lögð áhersla á sjálfbærni þeirra mannvirkja sem reist er í þágu íbúanna, einnig sé veitt fræðsla um meðferð á handpumpum vatnsbólanna og viðhaldi þeirra, auk þess sem héraðsstjórnir fái sérstaka þjálfun í að reka slíkar vatnsveitur.

Skærurnar í héraðinu á síðasta ári leiddu til þess að stöðva þurfti framkvæmdir um skeið, óheimilt var að ferðast um Sambesíufylki og framkvæmdum og eftirliti því áfátt á þeim tíma. Verkefnið er þar af leiðandi talsvert á eftir áætlun. Stríðandi fylkingar í landinu hafa hins vegar slíðrað sverðin, í gildi er vopnahlé og öruggt talið að ferðast um á þessum slóðum. Flóð settu einnig strik í reikninginn á síðasta ári en Americo segir að þess verði freistað að vinna upp töfina og nú sé unnið að öllum verkþáttum samkvæmt áætlun.

Verkefnaskjalið 
Mozambique's "mini-war"/ D+C

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum