Hoppa yfir valmynd
31.05. 2017

Áframhaldandi stuðningur Íslands við jarðhitanýtingu í Afríku í samstarfi við Umhverfisstofnun SÞ

Ákveðið hefur verið að verja rúmlega eitt hundrað milljónum króna úr jarðhitaverkefni utanríkisráðuneytisins og Norræna þróunarsjóðsins (NDF) í áframhaldandi stuðning við jarðhitanýtingu í austanverðri Afríku á næstu tveimur árum. Skrifað var undir samkomulag þessa efnis í síðustu viku. Erik Solheim framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UN Environment) og María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins skrifuðu undir samninginn.

Argep4"Í orkunni er fólginn kjarninn í umbreytingu Afríku. Hún er nauðsynleg fyrir iðnað, menntun, heilsu og önnur svið samfélagsins. Með þessu samstarfi koma Íslendingar til með að veita bestu þekkingu til Afríkuríkja og stuðla að því að þau geti þróað jarðhitaauðlindir  til að mæta orkuþörf  sinni," sagði Erik Solheim yfirmaður Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna  við undirritun samkomulagsins í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Næróbí í Kenía.

"Við höfum átt gott samstarf við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna. Kenía er leiðandi þjóð í jarðhitamálum Afríku og með þessu samkomulagi getur jarðhitaþróun orðið að veruleika í öðrum löndum í þessum heimshluta," sagði María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Svæðaverkefni Íslands og NDF að ljúka

Svæðaverkefni um jarðhitaleit og jarðhitanýtingu í Afríku, sem Íslendingar hafa leitt um árabil í samvinnu við Norræna þróunarsjóðinn (NDF) og Alþjóðabankann, lýkur um næstkomandi áramót. Verkefnið hefur miðað að því að aðstoða lönd í sigdalnum í Austur Afríku við rannsóknir og mannauðsuppbyggingu á sviði jarðhitanýtingar með það að markmiði að auka möguleika þjóðanna til framleiðslu sjálfbærrar og hreinnar orku. Með nýja samningnum við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna verður haldið áfram stuðningi við sjálfbæra þróun jarðhitanýtingar í Afríku með aðkomu íslenskrar sérþekkingar.

Öndvegissetur rís í Kenía

Fjárhagslegi stuðningurinn frá jarðhitaverkefni Íslands og NDF verður nýttur til að ljúka yfirborðsrannsóknum í aðildarríkjum verkefnisins og ennfremur verður veittur áfram stofnanastuðningur við uppbyggingu á öndvegissetri um jarðhita í Afríku.  Ákvörðun um slíkt rannsóknar- og fræðasetur var tekin af afrísku aðildarþjóðunum á síðasta ári og setrið kemur til með að rísa í Kenía. Stýrihópur hefur starfað um nokkurt skeið undir forystu fulltrúa Afríkusambandsins.

Öndvegissetrinu er ætlað að verða ein meginstoð sjálfbærrar jarðhitaþróunar í álfunni. Því er ætlað að byggja upp getu ungra vísindamanna á þessu sviði en einnig ná til verkfræðinga, bormanna, tæknimanna og þeirra sem sérhæfa sig í fjármálum og rekstri.

Mikil orkuþörf og mikil vannýtt orka í álfunni

Samkvæmt mánaðarritinu Atlas of Africa Energy Resources, sem Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og Afríski þróunarbankinn gefa út sameiginlega, er orkunotkun í Afríku sú minnsta í heiminum. Miðað við höfðatölu íbúa álfunnar hefur hún nánast verið óbreytt frá árinu 2000. Núverandi orkuframleiðsla í Afríku er engan veginn nægjanleg til að mæta eftirspurn. Þriðjungur allra íbúa hefur ekki ennþá aðgang að raforku og 53% íbúanna reiða sig á jarðefnaeldsneyti til eldunar, upphitunar og þurrkunar. Hins vegar býr álfan yfir mikilli ónýttri orku, meðal annars vatnsorku, vindorku, sól og lífrænu eldsneyti, auk jarðvarmans.

Talið er að Afríka búi yfir rúmlega 20 gígavatta jarðhitaauðlindum en þessi endurnýjanlegi og hreini orkugjafi er nýttur beint í orkuframleiðslu til að mæta vaxandi orkuþörf álfunnar. Kenía framleiðir nú þegar 600 megavött af raforku með jarðhita.

Frétt UN EnvironmentSustainable Development Goal on Energy (SDG7) and the World Bank Group/ Alþjóðabankinn 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum