Hoppa yfir valmynd
31.05. 2017

Fátæktarklukka á vefnum telur þá sem lyfta sér upp úr sárafátækt

FaaetkarkukkaSárafátækum í heiminum fækkar ört. Frá árinu 1990 hefur þeim sem búa við sárafátækt fækkað um rúmlega helming. Þrátt fyrir þessar framfarir býr fimmti hver íbúi margra þróunarríkja við sárafátækt sem er tekjuleg viðmiðun og var á síðasta ári breytt úr 1,25 bandarískum dölum upp í 1,90 - eða sem svarar til rúmlega 200 króna íslenskra á dag, 6000 króna mánaðarlauna.

Milljónir manna eru rétt fyrir ofan þessi tekjumörk og stór hópur er á einum tíma ofan við mörkin og á öðrum tímum í hópi sárafátækra. World Data Lab í Austurríki hefur útbúið vefsetur sem heitir The World Poverty Clock en þessi "klukka" sýnir hversu margir brjótast út úr fátækt og jafnframt hversu margir falla ofan í neðsta flokkinn og lenda meðal sárafátækra.

Í grein sem skrifuð er í GlobalNyt í Danmörku segir að það gangi hægt að lyfta fólki í þróunarríkjunum upp úr fátækt, það sé greinilegt á fátæktarklukkunni, sem sýni bæði fjölda þeirra sem komast yfir viðmiðunarmörkin og þann fjölda sem ÞYRFTI að lyfta upp úr sárafátækt til að Heimsmarkmiði númer eitt verði náð fyrir árið 2030 - að útrýma sárafátækt!

Fram kemur í greininni að það séu sérstaklega afrísku þjóðirnar Tjad, Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, Angóla, Sambía, Sómalía, Suður-Súdan og Líbía, þar sem öfugþróun á sér stað og sama gildi um fáeinar þjóðir í Suður-Ameríku, Súrínam, Kólombíu og Venesúela. Hins vegar sýni "fátæktarklukkan" að afrískar þjóðir eins og Eþíópía, Máritanía og Fílabeinsströndin eru á réttri leið og ættu með sama áframhaldi að ná því marki að útrýma fátækt fyrir árið 2030.

Ef skoðaðar eru sérstaklega samstarfsþjóðir Íslendinga í þróunarsamvinnu kemur eftirfarandi í ljós:
  • Í Malaví búa rúmlega 12 milljónir manna í sárafátækt eða 66,7% þjóðarinnar;
  • Í Mósambík búa rúmlega 19 milljónir í sárafátækt eða 64,7% þjóðarinnar;
  • Í Úganda eru sárafátækir tæplega 13 milljónir eða liðlega 30% íbúanna.

Klukkan segir að um 650 milljónir manna búi við sárafátækt, 9% jarðarbúa. Um miðjan dag hafa 75 þúsund einstaklingar lyft sér upp fyrir viðmið sárafátæktar frá miðnætti en rúmlega 20 þúsund fallið niður í flokk sárafátækra.
Nánar: WorldPoverty

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum