Hoppa yfir valmynd
31.05. 2017

Félags- og efnahagsleg afkoma kvenkyns sölumanna á fiskimarkaðnum í Panyimur, Úganda

Paniymur(Grein þessi er samantekt úr rannsókn sem sneri að afkomu kvenkyns sölumanna á Panyimur fiskimarkaðnum í Úganda)

Við norðanvert Albert vatn í Úganda er markaður sem kenndur er við sýsluna sem hann er staðsettur í, Panyimur. Á markaðsdögum, sem eru vanalega á fimmtudögum, er mikið líf á markaðnum enda kemur fólk langt að til að versla varning þar. Uppistaða þess sem selt er á markaðnum er saltaður, sólþurrkaður og reyktur fiskur sem að mestu hefur verið veiddur í Albert vatni. Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) endurbætti markaðinn, þar sem ÞSSÍ útvegaði meðal annars skýli til að selja varning, sólarorkuþyljur og hreinlætisaðstöðu. Verkefni þetta var hluti af stærra verkefni sem kallaðist Quality Assurance for Fish Marketing Project (QAFMP) og stóð frá 2009 til 2014. Markmið QAFMP var að bæta innviði nokkurra fiskimannasamfélaga vítt og breytt um Úganda, nánari upplýsingar um QAFMP má finna á heimasíðu ICEIDA.

Flestir sölumenn á markaðnum eru konur, en eins og víða um Afríku eru konur meginþorri þess vinnuafls sem sér um verkun og endursölu á fiski sem veiddur er af artisanal veiðimönnum í Úganda. Í rannsókninni sem þessi grein byggir á var athygli beint að þeim konum sem vinna á markaðnum og hafa lifibrauð sitt af því selja fisk. Til að mæla áhrif markaðarins á líf þessara kvenna var litið til menntunarstigs barna þeirra og samanburður gerður á menntunarstigi almennt í Úganda. Bætt menntun og hátt menntunarstig eru ein af grunnforsendum fyrir bættri félagslegri og efnahaglegri aðstöðu fólks. Til að undirstrika mikilvægi menntunar má nefna að bætt menntun var markmið númer tvö í Þúsaldarmarkmiðunum og er markmið númer fjögur í Heimsmarkmiðunum.

Pan3Í rannsókninni var stuðst við eigindlegar rannsóknaraðferðir. Farið var tvisvar á vettvang og viðtöl tekin við 20 konur. Einnig voru tekin viðtöl við umsjónarmenn markaðarins og opinbera starfsmenn sýslunnar. Viðtölin voru svo kóðuð með svokallaðri opinni kóðun þar sem vísar voru greindir sem mynda þemu. Niðurstöður voru svo túlkaðar út frá þeim þemum sem fundust í viðtölunum.

Þær konur sem vinna á markaðnum hafa ólíkan bakgrunn, þær eru á mismunandi aldri, hafa ólíkan efnahagslegan bakgrunn og koma frá mismunandi svæðum í Norð-Vestur Úganda. Sumar koma jafnvel frá Kongó (DRC) til að selja fisk sem veiddur hefur verið af fiskimönnum frá Kongó, en landamæri Úganda og Kongó þvera Albert vatn endilangt. Fjölbreytni þeirra sem versla á markaðnum er jafnvel ennþá meiri, og er fiskur seldur til Kongó, Suður Súdan og jafnvel alla leið til Mið-Afríkulýðveldisins. Vegna þess fjölbreytileika sem finna má á markaðnum er mikla dýnamík þar að finna.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að þær konur sem rætt var við áttu færri börn en meðalkona í Úganda. Að auki var skólasókn á meðal barna kvennanna hærri en gengur og gerist í Úganda. Álykta má að ástæða þess að tíðni barneigna sé minni á meðal kvenna sem vinna á markaðnum er að þær eru efnahagslega sjálfstæðar, með sjálfstæða innkomu. Að auki eyða þær miklum tíma á ytra sviði samfélagsins sem takmarkar veru þeirra innan veggja heimilisins. Flestar konurnar sögðu að markaðurinn væri sérlega mikilvægur fyrir efnahagslega velferð þeirra og að án hans væru fá  tækifæri í boði.

Þrátt fyrir þau auknu lífsgæði sem enduruppgerður markaðurinn veitir þessum konum, standa þær frammi fyrir mörgum áskorunum. Konurnar töluðu oftar en ekki um að eiginmenn þeirra mættu leggja meira til heimilisins, bæði efnahagslega og í verki. Góð tengsl og sambönd við aðra á markaðnum eru mikilvæg fyrir aðgengi kvennanna að markaðnum. Vegna þessa eiga konur sem sækja á markaðinn frá svæðum sem eru lengra frá, sérstaklega frá Kongó, á hættu að vera jaðarsettar. Mikilvægt er að góð og sanngjörn stjórnun eigi sér stað til að jafnt aðgengi sé fyrir alla sem vilja selja varning á markaðnum.

Til að sjá alla greinina, þá má nálgast hana hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum