Hoppa yfir valmynd
31.05. 2017

Guterres fordæmir árásir á heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarfólk

B2d6db5b3ac888dc758f2426e4a8763b200099b4Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna greindi frá því á dögunum að í vopnuðum átökum hefðu árásir á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar færst í aukana. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hélt fund í síðustu viku um vernd óbreyttra borgara á átakasvæðum. Guterres hvatti í opnunarávarpi sínu vígasveitir til þess að hlífa óbreyttum borgurum og takmarka skaða almennings.

Fram kom í máli hans að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefði gögn sem sýndu að í 20 þjóðríkjum voru á síðasta ári gerðar árásir á sjúkrastofnanir og heilbrigðisstarfsfólk, m.a. sjúkrahús, sjúkrabíla og lækna.  Slíkum árásum hefði fjölgað verulega í Sýrlandi og í Afganistan.
Í Sýrlandi hafa verið gerðar að minnsta kosti 400 árásir á heilbrigðisstarfsfólk eða sjúkrahús á síðustu sex árum. Þar væri helmingur sjúkrahúsa ýmist ekki í rekstri eða aðeins að takmörkuðu leyti og tveir af hverjum þremur heilbrigðisstarfsmönnum væru flúnir úr landi. Svipaða sögu væri að segja frá Suður-Súdan þar sem minna en helmingur heilsugæslustöðva á átakasvæðum væri opinn almenningi.

Alls hafa á fyrri hluta þessa árs verið gerðar 88 árásir á heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarfólk á fjórtán átakasvæðum. Áttatíu hafa fallið í þessum árásum og svipaður fjöldi særst.

 "Ég hvet deilendur til að taka ákveðin skref til að takmarka skaðann gagnvart almenningi í hernaðaraðgerðum eins og þeim ber skylda til samkvæmt alþjóðalögum", sagði Guterres.

Nánar 
Attacks on Health Sites Occurring 'With Alarming Frequency'/ Medscape

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum