Hoppa yfir valmynd
08.06. 2017

Eitt af hverjum fjórum börnum í heiminum rænt bernskunni

Að minnsta kosti 700 milljónir barna í heiminum fá ekki að njóta bernskunnar af ýmsum ástæðum og þau eru í raun svipt því tækifæri að fá að vera börn og um leið þeim réttindum sem því fylgja. Ísland er í áttunda sæti lista um hvar bernsku barna er síst ógnað í heiminum. Í efstu sætunum eru Noregur, Slóvenía og Finnland. Níger er hins vegar í botnsæti listans á eftir Angólu og Malí.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barnaheilla - Save the Children, Börn án bernsku, eða  End of Childhood Report: Stolen Childhoods sem kom út á alþjóðlegum degi barna fyrir nokkrum dögum. Skýrslan verður gefin út árlega og er arftaki skýrslunnar um stöðu mæðra sem samtökin gáfu út í 16 ár. Í nýju skýrslunni er farið yfir helstu ástæður þess að börn njóta ekki bernskunnar og lögð áhersla á mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið bregðist við, að því er fram kemur í frétt Barnaheilla - Save the Children á Íslandi.Þar segir að meginástæður þess að börn fái ekki að njóta bernsku sinnar séu vannæring, slæm heilsa og skortur á heilsuvernd, þau búi við stríðsátök, ofbeldi eða barnaþrælkun, fái ekki að ganga í skóla, séu látin giftast á barnsaldri og þunganir ungra stúlkna. "Þessir þættir hafa afdrifarík áhrif á velferð barnanna, ekki einungis þegar þau eru börn heldur alla ævi. Þeir eru því árás á framtíð þeirra," segir í fréttinni.

Í skýrslunni er fjöldi raunverulegra dæma um það harðræði sem mörg börn búa við. Samtökin skoðuðu í fyrsta sinn fjölda barnamorða og komust að því að á hverjum degi eru meira en 200 börn myrt. Flest í Suður-Ameríkuríkjunum Hondúras, Venesúela og El Salvador þar sem ofbeldi hefur færst mjög í vöxt.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er:

  • 185 milljónir barna eru í ánauð vinnuþrælkunar, þar af 85 milljónir við hættuleg störf
  • Á hverju ári eru 40 milljónir stúlkna á aldrinum 15-19 gefnar í hjónaband eða sambúð, þar af 15 milljónir sem eru undir 15 ára aldri
  • 263 milljónir barna ganga ekki í skóla
  • 16 milljónir stúlkna undir 19 ára aldri fæða börn á ári hverju og milljón stúlkur undir 15 ára aldri
  • 6 milljónir barna undir fimm ára aldri deyja árlega
  • Nærri 28 milljónir barna eru á flótta
  • Meira en 75 þúsund börn og ungmenni undir 20 ára aldri voru myrt árið 2015
  • Vannæring hamlar vexti 156 milljón barna undir fimm ára aldri

"Alltof mörg börn í heiminum búa við ömurlegar aðstæður; stríðsátök, eru barnaþrælar, barnabrúðir, þjást og deyja vegna sjúkdóma sem til er lækning við, eru vannærð og án menntunar. Þau eru svipt bernsku sinni og það er óásættanlegt að þau búi ekki við þau réttindi að fá að lifa við öryggi og fá að þroskast og leika sér. Þó svo að sumum sé hjálpað út úr aðstæðunum síðar á lífsleiðinni, fá þau aldrei bernsku sína aftur," segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla - Save the Children á Íslandi.

Samtökin standa fyrir undirskriftasöfnun þar sem þrýst er á ríkisstjórnir heimsins að fjárfesta í börnum og tryggja þeim réttindi sín á síðunni  endofchildhood.org

700 milljónir barna í heiminum fá ekki að njóta bernskunnar/ Vísir 
War, marriage and hunger: one in four childhoods cut short/ Reuters

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum