Hoppa yfir valmynd
08.06. 2017

Fjögur verkefni Rauða krossins á Íslandi fá styrk frá ráðuneytinu

South-sudan-ICRCRauði krossinn á Íslandi hlaut styrki frá utanríkisráðuneytinu að upphæð 75 milljónir króna vegna fjögurra mannúðarverkefna. Verkefnin eru í Jemen, Suður-Súdan, Sýrlandi og Sómalíu. Verkefnin eru þessi:

Neyðaraðstoð vegna fæðuskorts og vopnaðra átaka í Jemen (30 milljónir)

Verkefni þessu er ætlað að bregðast við neyðarbeiðni Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) vegna fæðuskorts og vopnaðra átaka í Jemen. Meginmarkmið verkefnisins er að bregðast við þeim fjölþætta mannúðarvanda sem viðvarandi er í Jemen. Verkefnið felur í sér þverfaglega neyðaraðstoð sem stuðlar að því að efla viðnámsþrótt almennra borgara sem líða fyrir fæðuskort á átakasvæðum. Í nafni alþjóðlegra mannúðarlaga er verkefninu sérstaklega ætlað að svara grunnþörfum og tryggja vernd þeirra sem ekki geta talist beinir þátttakendur í átökunum. 

Markmið verkefnisins eru þannig eftirfarandi:

*Tryggja óbreyttum borgurum vernd gagnvart átökum stríðandi fylkinga, í samræmi við ákvæði alþjóðlegra mannúðarlaga. 
*Stuðla að auknu aðgengi að nauðsynlegri og tímanlegri læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu. 
*Fólk á vergangi og aðrir íbúar fá grunnþörfum sínum fullnægt, m.a. með dreifingu matvæla. 
*Stuðla að sameiningu fjölskyldna sem hafa orðið viðskila vegna átakanna. 
*Tryggja að lífsskilyrði og meðhöndlun fanga séu viðunandi og samræmis alþjóðlegum mannúðarlögum. 

Neyðaraðstoð vegna fæðuskorts og yfirvofandi hungursneyðar í Sómalíu (15 milljónir)

Verkefni þessu er ætlað að bregðast við neyðarbeiðni Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) vegna fæðuskorts og yfirvofandi hungursneyðar í Sómalíu.

Markmið verkefnisins er tvíþætt:

*Bregðast við brýnni næringarþörf berskjaldaðs fólks, með áherslu á þungaðar konur, konur með börn á brjósti, börn undir 5 ára aldri og fjölskyldur sem misst hafa ráð sín til lífsviðurværis. 
*Draga úr heilbrigðisáhættu íbúa til lengri tíma, þar sem áhersla er lögð á að koma í veg fyrir vatnsborna sjúkdóma og hindra útbreiðslu smitsjúkdóma. 

Barátta gegn kynferðislegu ofbeldi í Sýrlandi (15 milljónir)

Verkefni þessu er ætlað að bregðast við sérstakri neyðarbeiðni Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) gegn kynferðislegu ofbeldi í viðvarandi átökum í Sýrlandi. Meginmarkmið verkefnisins er að vinna gegn kynferðislegu ofbeldi í Sýrlandi, með það að augnamiði að:

*Draga úr aukningu kynferðislegs ofbeldis. 
*Fyrirbyggja og takmarka langvarandi og alvarlegar afleiðingar kynferðislegs ofbeldis með því að auka og, eftir fremsta megni, tryggja aðgengi fórnarlamba að heilbrigðisþjónustu. 
*Auka viðbúnað, sýnileika og afkastagetu heilbrigðisþjónustu svo mögulegt sé að mæta lífsnauðsynlegum þörfum fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis. 
*Vekja viðeigandi valdhafa, s.s. stjórnvöld og stríðandi fylkingar, til vitundar um ákvæði alþjóðlegra mannúðarlaga, þ.m.t. viðurlög, lögbundna ábyrgð og skyldur þeirra í vopnuðum átökum í samræmi við Genfarsamninga og þá sérstaklega skyldur er varða virðingu og vernd til handa óbreyttum borgurum, með áherslu á kynferðislegt ofbeldi. 

Barátta gegn kynferðislegu ofbeldi í Suður-Súdan (15 milljónir)

Verkefni þessu er ætlað að bregðast við sérstakri neyðarbeiðni Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) gegn kynferðislegu ofbeldi í viðvarandi átökum í Suður-Súdan. Meginmarkmið verkefnisins er að vinna gegn kynferðislegu ofbeldi í Suður-Súdan, með það að augnamiði að:

*Draga úr aukningu kynferðislegs ofbeldis. 
*Fyrirbyggja og takmarka langvarandi og alvarlegar afleiðingar kynferðislegs ofbeldis með því að auka og, eftir fremsta megni, tryggja aðgengi fórnarlamba að heilbrigðisþjónustu. 
*Auka viðbúnað, sýnileika og afkastagetu heilbrigðisþjónustu svo mögulegt sé að mæta lífsnauðsynlegum þörfum fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis. 
*Vekja viðeigandi valdhafa, s.s. stjórnvöld og stríðandi fylkingar, til vitundar um ákvæði alþjóðlegra mannúðarlaga, þ.m.t. viðurlög, lögbundna ábyrgð og skyldur þeirra í vopnuðum átökum í samræmi við Genfarsamninga og þá sérstaklega skyldur er varða virðingu og vernd til handa óbreyttum borgurum, með áherslu á kynferðislegt ofbeldi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum