Hoppa yfir valmynd
08.06. 2017

SOS: Tólf þúsund stríðshrjáð börn í Miðafríkulýðveldinu fá stuðning

MidafriklydveldidÁtökin í Miðafríkulýðveldinu er eins og fram kemur í fréttinni hér að ofan þau sem eru mest vanrækt í heiminum að mati Norska flóttamannaráðsins. Einn af sex styrkjum sem utanríkisráðuneytið veitti á dögunum til mannúðarmála fer til Miðafríkulýðveldisins þar sem SOS Barnaþorpin á Íslandi eru með verkefni.

Í samtali við Heimsljós segir Sunna Stefánsdóttir kynningarstjóri SOS Barnaþorpanna að neyðin í landinu sé gríðarleg og talin í hópi tíu alvarlegustu neyða í heiminum í dag. "Yfirvöld í landinu ráða ekki við ástandið sem meðal annars einkennist af fólki á flótta, skipulögðum drápum á ættbálkum og mannréttindarbrotum," segir hún.

Verkefnið sem SOS Barnaþorpin fengu styrk fyrir er í Bangui héraði og mun að minnsta kosti standa yfir til vors 2018.

"Áhersla er lögð á opnun barnvænna svæða, sálfræðiaðstoð fyrir börn, menntun, skimun og aðgerðum gegn vannæringu barna og þungaðra kvenna ásamt heilbrigðisþjónustu. Þá er mikil áhersla lögð á að fylgdarlaus börn fái skjól og/eða sameinist fjölskyldu sinni. Áætlaður fjöldi beinna skjólstæðinga verkefnisins er 12 þúsund börn," segir Sunna.
Styrkurinn frá utanríkisráðuneytinu nemur 12 milljónum króna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum