Hoppa yfir valmynd
14.06. 2017

Framlögum verður að mestu ráðstafað í þágu kvenna og stúlkna

https://youtu.be/wBlcj5q6l3k Samkvæmt nýrri femínískri stefnu stjórnvalda í Kanada í þróunarmálum verða 95% af öllum opinberum framlögum ráðstafað í þágu kynjajafnréttis kvenna og stúlkna, árið 2022. Ríkisstjórnin ákveður með öðrum orðum að setja fimmta Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í öndvegi. Samkvæmt hugmyndafræðinni er stuðningur við konur, stuðningur við alla, eins og kanadíska stórblaðið The Star orðaði það.

Í frétt blaðsins segir að þetta sé róttæk ný sýn í þróunarsamvinnu Kanada sem kynroðalaust tali fyrir femíniskum áherslum sem leið til að útrýma fátækt í heiminum með því að styðja við bakið á konum í fátækum þjóðum veraldarinnar.

Í tilkynningu frá stjórnvöldum segir að ríkisstjórn Kanada hafi samþykkt femíníska stefnu í alþjóðlegri þróunarsamvinnu til að stuðla að jafnrétti kynjanna og styrkja allar konur og stúlkur. 

Marie-Claude Bibeau þróunarmálaráðherra Kanada segir það mat ríkisstjórnar Kanada að þetta sé árangursríkasta leiðin til að draga úr fátækt og byggja upp heim þar sem ríkir meiri friðsæld og velsæld.
Á sérstakri vefsíðu um nýju stefnuna segir að þegar konur og stúlkur fái jöfn tækifæri til að ná árangri geti þær orðið kyndilberar mikilla breytinga, styrkt efnahaginn, stuðlað að friði og samvinnu, og aukið lífsgæði fyrir fjölskyldur þeirra og samfélög.

Fjögur áherslusvið nýju stefnunnar eru þessi:

  • takast á við kynbundið ofbeldi;
  • styðja staðbundin samtök og hreyfingar sem tala fyrir réttindum kvenna;
  • bæta færni opinberra stofnana í almannaþágu; og
  • hjálpa til við að byggja upp sterkan grundvöll sönnunargagna til stuðnings jafnréttisaðgerðum.


Eftir fimm ár verði 95% framlaga Kanada til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu ráðstafað til verkefna sem tengjast kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna. Helmingur framlaganna fari til þjóða í sunnanverðri Afríku og framlög til heilbrigðismála og kyn- og frjósemismála verði tvöfaldaður.

Þótt Kanada sé fyrsta þjóðin sem ákveður að einblína á konur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu má geta þess að Svíar kynntu femíníska stefnu í öllum utanríkismálum sínum árið 2015.

Samkvæmt fimmta Heimsmarkmiðinu á að tryggja  jafnrétti kynjanna og efla völd allra kvenna og stúlkna. Í undirmarkmiðum segir meðal annars: Öll mismunun gagnvart konum og stúlkum verði afnumin alls staðar; allir skaðlegir siðir, eins og barnahjónabönd, snemmbúin og þvinguð hjónabönd og sköddun kynfæra kvenna, verði afnumdir; og ólaunuð umönnunar- og heimilisstörf verði viðurkennd og metin með því að tryggja opinbera félagsþjónustu, innviði og stefnumörkun á sviði félagslegrar verndar og að ýtt verði undir sameiginlega ábyrgð innan heimilis og fjölskyldu eins og við á í hverju landi.

Vefur um stefnuna: 
Canada's feminist international assistance policy/ InternationalGC 

Canada's new foreign aid policy puts focus on women, rights/ Devex 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum