Hoppa yfir valmynd
14.06. 2017

Frumkvöðlakonur í sjálfbærri orku funda í Gabon - fjármögnun í brennidepli

Utanríkisráðuneytið, Jafnréttisskóli Háskóla SÞ (UNU-GEST)  og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Environment) skipulögðu vinnufund fyrir frumkvöðlakonur sem starfa við sjálfbæra orku í Afríku, sem haldinn er þessa dagana í Libreville í Gabon. Aðrir samstarfsaðilar eru Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Pan-afríska bandalagið um loftslagsréttindi (PACJA).  Þema fundarins er Afríka 2030: nýting tækifæra fyrir konur í sjálfbærri orku - leiðir til að ná Heimsmark miðum SÞ og markmiðum Afríkusambandsins 2063 . 

https://youtu.be/_sVKCEBU_Go Fundurinn er haldinn í tengslum við árlegan fund afrískra umhverfisráðherra (AMCEN)  og er markmið vinnufundarins að móta tillögur sem lagðar verða fyrir umhverfisráðherra álfunnar til samþykktar.

Á fundinum koma saman frumkvöðlar alls staðar að úr álfunni, auk sérfræðinga og fulltrúa alþjóðastofnana, en sérstök áhersla er á þrjá málaflokka: (1) orkustefna sem hefur sjálfbærni og jafnrétti að leiðarljósi, (2) aðgangur að fjármagni og markaði fyrir frumkvöðlakonur í allri virðiskeðjunni, og (3) getuuppbygging, hæfni og valdefling. Vinnufundinn sækja rúmlega 100 þátttakendur frá 24 Afríkulöndum, en Hildigunnur Engilbertsdóttir sækir fundinn fyrir hönd utanríkisráðuneytisins og Erla Hlín Hjálmarsdóttir fyrir hönd Jafnréttisskólans.

Ljóst er að orkumál eru ákaflega knýjandi í Afríku, sem hefur setið eftir ef miðað er við aðra heimshluta. Aðgangur að sjálfbærri orku og þátttaka kvenna tengist beint Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem snúa að kynjajafnrétti, hreinni orku og umhverfismálum, en tengjast einnig öðrum markmiðum þar sem aðgangur að sjálfbærri orku er gjarnan grunnforsenda fyrir árangri á öðrum sviðum. Til að ná árangri á sviði þróunar er því mikilvægt að leita leiða til að nýta kraft kvenna innan álfunnar.

Þátttakendur vinnustofunnar leiða mörg áhugaverð verkefni í ólíkum svæðm Afríku og hafa vandamál tengd fjármögnun verið í brennideplinum. Sem dæmi má nefna að Phemelo Charity Segoe frá Suður Afríku (sjá mynd) starfar fyrir fyrirtækið Rethaka sem nýtir sólarrafhlöður á endurunnar skólatöskur barna. Hún telur helstu áskoranir sem hún standi frammi fyrir vera sjálfbærni fjármögnunar fyrirtækisins, en töskurnar eru of dýrar til að lágtekjufjölskyldur hafi bolmagn til að kaupa þær og þarf fyrirtækið því að reiða sig á fjármögnun frá gjafastofnunum - og ríkjum. 

PhemeloEnergia er alþjóðlegt netverk um jafnréttismál og sjálfbæra orku. Sheila Oparaocha sem starfar fyrir Energia í Kenía bendir réttilega á að ekki er hægt að leita einhliða lausna fyrir flókinn vanda. Þegar öllu er á botninn hvolft þurfi að lokum að stóla á markaði og ná sjálfbærni í orkulaunsum. Með hennar eigin orðum: "Afríka mun ekki þróast með ókeypis fjármagni." Þegar upp er staðið þurfa lítil orkufyrirtæki - hvort sem þau eru rekin af körlum eða konum - að standa undir rekstrinum. Diana Mbogo frá Tansaníu er gott dæmi um þetta. Hún rekur nú lítið orkufyrirtæki sem nefnist Millennium Engineers en það  þjónar þörfum kvenna og sinnir fjölbreytilegum verkfræðilegum verkefnum. Meðal annars framleiðir fyrirtækið hverfla fyrir vindorku úr staðbundnum hráefnum, en þess má geta að Diana var útnefnd frumkvöðull ársins í Tansaníu úr röðum námsmanna á síðasta ári. Hún gagnrýnir að hafa lítinn sem engan stuðning fengið þegar hún var að koma fyrirtækinu á laggirnar. Nú þegar fyrirtækið hefur sannað sig, standa fjármálastofnanir í röðum að bjóða henni lán og annan stuðning, loks þegar hún þarf ekki lengur á því að halda.

Þátttakendur vinnufundar hafa nú þegar vakið athygli hjá háttsettum fulltrúum Afríkulanda sem sækja AMCEN. Hadijatou Jallow, umhverfisráðherra og framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Síerra Leóne, sem er jafnframt formaður Félags afrískra kvenráðherra og leiðtoga í umhverfismálum hefur setið vaktina með frumkvöðlakonunum og tekið virkan þátt í fundinum. Sömuleiðis funduðu tveir ráðherrar frá Gabón með frumkvöðlakonunum, Estelle Ondo umhverfisráðherra og Biendi Maganga ráðherra lítilla fyrirtækja. Seinni dagur vinnustofunnar er helgaður vinnufundum um sértæk málefni og er markmiðið að koma efnisatriðum inn í ályktun umhverfisráðherra Afríku þegar árlegum fundi þeirra lýkur nú í lok vikunnar. Því er ákaflega dýrmætt að hafa pólitískan stuðning meðal þátttakenda ráðherrafundarins.

Af vinnufundinum að dæma er ljóst að frumkvöðlakonur í orkugeiranum víða í Afríku standa frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Hins vegar er einnig ljóst að mörg sóknarfæri eru til staðar, sér í lagi ef að auður og framlag kvenna er nýtt til fullnustu, sem er gunnforsenda fyrir því að þróun Afríku komist á skrið á sviði orkumála.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum