Hoppa yfir valmynd
14.06. 2017

Rödd Íslands sterk á hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York

https://vimeo.com/220289475 "Íslendingar lögðu fram viljayfirlýsingu um að draga úr plastmengun í sjó með skipulögðu átaki, að auka þekkingu á afleiðingu súrnunar sjávar og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum með fjölþættum aðgerðum sem muni meðal annars stuðla að minni losun frá samgöngum og sjávarútvegi," segir Jóhann Sigurjónsson sérstakur erindreki um málefni hafsins hjá utanríkisráðuneytinu sem sótti hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York.

Jóhann segir að einnig hafi verið kynnt viljayfirlýsing um að ljúka kortlagningu hafsbotnsins innan íslenskrar efnahagslögsögu og koma á nýtingaráætlunum fyrir mikilvægustu fiskistofnana við landið, hvorutveggja til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlindanna í hafinu í kringum Ísland. "Þá er Ísland meðal þjóða sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um að stefna að því að banna örplast í snyrtivörum, en örplast er meðal mengunarefna sem geta haft neikvæð áhrif á lífríki hafsins," segir hann.

Ráðstefnan fór fram dagana 5.-9. júní og fjallaði í raun um 14. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem snýr að málefnum hafsins, bæði vernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins. Ráðstefnan var afar fjölsótt þar sem fyrir mörgum sendinefndum ríkja fóru þjóðarleiðtogar og ráðherrar, en ráðstefnan var haldin í höfuðstöðvum SÞ í New York undir forystu forseta allsherjarþings SÞ, Peter Thomson frá Fiji eyjum, en forsetar ráðstefnunnar voru Isabella Lövin þróunarmálaráðherra Svíþjóðar og Semi Koroilavesau sjávarútvegsráðherra Fiji.

Að sögn Jóhanns Sigurjónssonar samanstóð þessi fimm daga ráðstefna af almennri umræðu og sjö þemamálstofum, þar sem fjallað var um helstu hafáherslur Heimsmarkmiða SÞ: mengun heimshafanna, stjórn og verndun strandsvæða, súrnun sjávar, sjálfbærar fiskveiðar, stöðu smáeyríkja, vísindi og tæknilausnir og miðlun þekkingar, og framkvæmd Hafréttarsáttmála SÞ. 

Þá hafa ríki Sameinuðu þjóðanna að sögn Jóhanns sameinast um ákall um aðgerðir til að bæta ástand heimshafanna, treysta samstarf og efla rannsóknir, vöktun hafsins og miðlun þekkingar og reynslu. Að síðustu lögðu þátttakendur ráðstefnunnar fram 1328 viljayfirlýsingar um aðgerðir, sem snúa að hreinna hafi, minni mengun, verndun lífríkis og sjálfbærum fiskveiðum. 

"Ástand heimshafanna og lífríki sjávar skiptir Ísland afar miklu máli í bráð og lengd," segir Jóhann. "Þess vegna var ákveðið að taka virkan þátt í ráðstefnunni og það hefur verið unnið að undirbúningi hennar síðustu misserin í samstarfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis undir forystu utanríkisráðuneytisins, bæði fastanefndarinnar í New York og í ráðuneytinu heima í Reykjavík."

Þessi þrjú ráðuneyti skipuðu sendinefnd Íslands undir forystu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þorgerður Katrín stýrði ásamt fulltrúa Perú málstofu um hafvísindi og tækni í sjávarútvegi, en auk þess átti íslenska sendinefndin sérstakt framlag í málstofu um súrnun hafsins þar sem Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra talaði. 

Málstofa um bláa hagkerfið

ThorgerdurÍsland stóð fyrir málstofu í samvinnu við Færeyjar og Norrænu ráðherranefndina um bláa hagkerfið. Málstofan var ein í röð þriggja um það efni, var sú síðasta í röðinni og bar heitið „Realising the Blue Bioeconomy in Small Island States: Building on Governance and Innovation. Henni var stjórnað af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra. Aðalniðurstaða málstofunnar var tilkynning um samstarf smárra eyríkja á svið bláa lífhagkerfisins, Small Island Blue Bioeconomy Forum, sem haldið verður í tengslum við „Our Oceans“ ráðstefnuna á Möltu í október. Þar verða kynnt dæmi um þá möguleika sem liggja í blá lífhagkerfinu og þá erfiðleikar sem smá eyríki eiga sameiginleg. Þetta verður gert með því að lítil eyríki úr suðri og norðri koma með raunveruleg dæmi um verkefni eða fyrirtæki.

Þá tóku fulltrúar Íslands þátt í málstofu um sjálfbærar fiskveiðar, og um hafréttarmál. Jafnframt því tók íslenska sendinefndin þátt í fjölda hliðarviðburða um málefni hafsins. Því má segja að íslensk rödd hafi verið óvenju áberandi á þessari miklu ráðstefnu.

"Íslenska sendinefndin lagði áherslu á að mikilvægt væri að þjóðir heims tækju höndum saman til að bæta ástand heimshafanna með átaki í baráttunni gegn plastmengun og annarri mengun, eftirfylgni við Parísarsamkomulagið með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda og síðast en ekki síst með því að tileinka sér ábyrga fiskveiðistjórnun, sem í dag væri mjög vel mögulegt á grundvelli vísinda og tækni, eins og dæmin sanna. Stjórnmálamenn þyrftu líka að styðja við vísindin, jafnvel þegar ráðgjöfin væri ekki svo auðveld í framkvæmd. Íslendingar væru reiðubúnir til að miðla af reynslu sinni í þessum efnum og gerðu það m.a. með starfsemi Sjávarútvegsskóla Háskóla SÞ, sem rekinn væri á Íslandi." Fulltrúar skólans sóttu einnig ráðstefnuna og kynntu starfsemi hans.

Viljayfirlýsing Íslands  
Rödd Íslands sterk á hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York/ Atvinnuvegaráðuneyti 
Ráðherra ávarpar hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna/ Umhverfis- og auðlindaráðuneytið 
UN Ocean Conference could bring 'next big thing' in development/ Devex 
Research, solutions needed for looming oceans catastrophes, UN leaders say/ Devex The way we protect the oceans is badly outdated. Here's how to change that, eftir Liza Gross/ Vox 
Så illa mår haven - här är frågorna för FN:s havkonferens/ OmVärlden 
It is time to save our oceans/ AfricaRenewal The Potential of the Blue Economy : Increasing Long-term Benefits of the Sustainable Use of Marine Resources for Small Island Developing States and Coastal Least Developed Countries/ AlþjóðabankinnUN Ocean Conference wraps up with actions to restore ocean health, protect marine life/ UNNewsCentre

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum