Hoppa yfir valmynd
14.06. 2017

Upplifun flóttamannsins

RedcrosssalaskoliÁ dögunum var leikurinn "Upplifun flóttamannsins" prófaður með nemendum níunda bekkjar Salaskóla í Kópavogi. Markmið leiksins er að auka þekkingu ungs fólks á aðstæðum flóttafólks. Áhersla er lögð á verklegar æfingar svo þátttakendur geti sett sig í spor annarra. 
Leikurinn er hannaður út frá verkefni Rauða krossins í Bandaríkjunum Losing your most prized posession.

Fara í hlutverk flóttafólks

Í leiknum fara nemendur í hlutverk flóttafólks og þurfa að fara yfir stríðssvæði þar sem leynist fjöldi jarðsprengja. Þátttakendur velja fjóra hluti eða einstaklinga sem eru þeim kærir til að taka með sér. Ferðin er þó ekki hættulaus því ef rekist er á jarðsprengju þá missir viðkomandi einn af þeim hlutum eða einstaklingum sem valdir voru. Að því loknu fara hóparnir í umræðu með leiðbeinanda og ræða upplifanir sínar og það varnarleysi sem fólgið er í að missa það sem er þeim kærast. Ýmsar spurningar vöknuðu upp í samræðunum til dæmis: "Hvað er nauðsynlegt að taka með sér á flótta?", "Hvað skilur fólk eftir þegar það flýr?", "Má skjóta hvern sem er í stríði?", "Hverjir eru það sem hljóta sérstaka vernd?", "Er algengt að börn týnist í stríði?". Í þessum umræðum leggja leiðbeinendur sérstaka áherslu á alþjóðleg mannúðarlög sem eru lög sem gilda í stríði. 

Nemendur í Salaskóla tóku leiknum vel og bentu á ýmislegt sem betur má fara í framkvæmdinni. Fram kemur á vef Rauða krossins að það sé gott fyrir félagið að fá ungt fólk með sér í að prófa leiki í fyrsta sinn til að laga það sem þarf. "Nemendurnir voru opnir og jákvæðir með spurningar  sem sýna hvað þau eru vel upplýst og þroskuð í vangaveltum sínum," segir í fréttinni.

Leikurinn verður hluti af Mannúðarfræðslu sem grunnskólar í Kópavogi hafa möguleika á að bjóða upp á sem valgrein í tíunda bekk í samstarfi við Rauða krossinn í Kópavogi. Kársnesskóli hefur nú þegar tekið upp áfangann og boðið upp á sem valgrein og hafa nú þegar þrír aðrir skólar í Kópavogi sýnt áhuga á gera slíkt hið sama í haust. Stefnt er að því að bjóða öllum skólum í Kópavogi samstarf árið 2018.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum