Hoppa yfir valmynd
21.06. 2017

Ekki lengur fyrrum Sovétlýðveldi

Biltmore-Hotel-Tbilisi-hero-_downsize_8979-1180x740"Georgía er ekki lengur "fyrrum" ríki. Við verðum að losa okkur undan þessum "fyrrum" klisjum. Við erum einfaldlega Austur-Evrópu ríki". Þessi orð Giorgis Kvirikashvili, forsætisráðherra Georgíu, á ráðstefnu í Bratislava í lok maí vöktu mig til umhugsunar. Ég veit nefnilega upp á mig skömmina. Satt best að segja taldi ég mig vera setjast að í einhvers konar "diet" útgáfu af Sovétríkjunum þegar ég lagði land undir fót í september. Veruleikinn sem blasti við var allt annar.

Ég skil gremju forsætisráðherrans yfir því að landið hans skuli í sífellu vera tengt við kommúnískt ráðstjórnarríki sem leystist upp fyrir hartnær þremur áratugum. Svona eins og Mæja væri sífellt kölluð "Mæja hans Nonna" þótt hún hafi skilið við Nonna árið 1991 og vilji ekkert með hann hafa. Georgía er nefnilega þræláhugavert dæmi um (hingað til) farsæla þróun lýðræðis og markaðsbúskapar. Það sem gerir dæmið enn áhugaverðara er að þessar umbætur eru gerðar í trássi við vilja fyrrum drottnarans. Því, svo vitnað sé í dæmið hér að ofan, þótt Mæja vilji ekkert með Nonna hafa og reynir af öllum mætti byggja upp nýja tilveru eftir löngu tímabæran skilnað, þá gerir Nonni allt sem í hans valdi stendur til að bregða fyrir hana fæti á þessari nýju vegferð.

Blóðlaus bylting vendipunkturinn

Þessi vegferð hefur siður en svo gengið þrautalaust fyrir sig, bæði vegna utanaðkomandi afskipta og innanmeina. Rúmlega tveir áratugir eru síðan Georgía var á barmi þess að vera þrotríki ("failed state"). Blóðug borgarastyrjöld holaði innviði landsins að innan, íbúar máttu búa við viðvarandi rafmagnsleysi og glæpagengi réðu lögum og lofum hvort sem var á götunum eða við stjórn landsins. Enda var forsetinn, Eduard Shevardnadze, lítið annað en afsprengi Sovétríkjanna og fylgitungl ráðamanna í Kreml. Eftir grímulaust kosningasvindl í þingkosningunum 2003 fengu íbúar landsins sig fullsadda af spillingu og vanhæfni Shevardnadzes og efndu til byltingar, Rósabyltingarinnar. Shevardnadze neyddist til að segja af sér og efnt var til kosninga þar sem leiðtogi byltingarsinna, hinn ungi og aðsópsmikli Mikheil Saakashvili, var kjörinn forseti. Saakashvili gjörbreytti stefnu landsins. Áherslan var sett á aðild að NATO og Saakashvili lagði mikla rækt við sambandið vid Bandaríkin, Rússum til megnrar óánægju. 

Róttækar umbætur

Eitt helsta afrek Saakashvilis var án efa umbætur í stjórnsýslu landsins, einkum og sér í lagi löggæslunni. Hann skipti út umferðarlögreglunni eins og hún lagði sig, enda lögreglumenn þess tima lítið annað en fantar í einkennisbúningi. Fjöldi embættismanna hlaut sömu örlög. Þeir sem komu í staðinn fengu hærri laun og aukin fríðindi til að draga úr hvata til spillingar. Landið er nú í 44. sæti á spillingarlista Transparency International, samanborið við 133. sæti árið 2004.  

Efnahagsumbæturnar skiluðu sömuleiðis árangri því Georgía er í 44. sæti á lista Forbes yfir riki þar sem best er að stunda viðskipti. 

GeorgiaÁhrifa umbóta Saakashvilis gætir vissulega enn, en öllu sýnilegri áhrif hafði sú undarlega árátta Saakashvilis að skilja eftir sig minnisvarða í formi skrautlegra bygginga. Smekkur Saakashvilis er í besta falli umdeilanlegur og víða í Tbilisi og Batumi má sjá byggingar sem eru algjörlega úr takti við umhverfið. Og veruleikann ef út í það er farið. Er nærtækast að nefna hið hryllilega Biltmore hótel sem gnæfir yfir borgina eins og turn Saurons, tónlistarhúsið sem stendur eins og rotþró við Mtkvari ána og síðast en ekki síst Hetjutorg, sem er í sjalfu sér ekki afleitt útlits, en algjörglega gagnlaust sem samgöngumannvirki. 

Rússar minna á sig

En þessar umbætur Saakashvilis höfðu hliðarverkanir. "Zero Tolerance" stefna hans gagnvart glæpum þótti í besta falli harðneskjuleg og ýmsum meðölum var beitt til að þvinga fram játningar, jafnvel fyrir minnstu glæpi. Þeir sem voru leiddir fyrir dómara voru nær undantekningalaust sakfelldir enda urðu fangelsi landsins fljótt yfirfull.

Hvatvísi Saakashvilis kom honum einnig um koll þegar uppreisnarmenn i Suður-Ossetíu, dyggilega studdir af Rússum, hófu að herja á þorp innfæddra Georgíumanna. Saakashvili brást við af fullri hörku sem varð til þess að rússneski herinn, sem var grunsamlega reiðubúinn til innrásar hinu megin við landamærin, óð inn í Georgíu af fullu afli (Hvort sú staðreynd, að einungis nokkrum vikum áður hafði NATO gefið Georgíu vilyrði um aðild aðbandalaginu, hafi skipt sköpum þegar þarna var komið skal ósagt látið). Átökin stóðu fram í byrjun október þegar rússneski herinn dró sig til baka og með stuðningi Rússa lýstu Abkhazía og Suður-Ossetía yfir sjálfstæði, nokkuð sem enginn viðurkennir nema fjögur leppriki Rússa. 192 þúsund manns af georgískum uppruna voru hrakin frá heimilum sínum og hafa enn í dag stöðu flóttamanna. 

Alla tíð síðan hafa Rússar leynt og ljóst hert tök sin á þessum tveimur héruðum sem ná yfir 20% landssvæði Georgíu. Rússneskum hermönnum á svæðunum fjölgar stöðugt og rússneskir landamæraverðir eru sífellt að færa til línuna sem aðskilur héruðin frá yfirráðasvæði Tbilisi. Mörg dæmi eru þess að bændur sem lögðust til hvílu í Georgíu hafa vaknað innan víggirtrar girðingar, á rússnesku yfirráðasvæði. Ekki er að sjá að Rússar græði mikið á þessu brölti sínu í Abkhazíu og Suður-Ossetíu, enda lítið þangað að sækja. Þeir sjá hins vegar mikinn pólitískan ávinning í að halda héruðunum þar sem þeir líta svo á að núverandi ástand geri Georgíu það ómögulegt að gerast fullgildur aðili að NATO og síðar meir Evrópusambandinu. 

Tími Bidzina rennur upp

Vinsældir Saakashvilis minnkuðu ört eftir því sem leið á valdatíma hans og í árslok 2012 tók ný valdablokk, Georgíski draumurinn, við stjórnartaumunum. Stjórnarskiptin mörkuðu tímamót að því leyti að þarna urðu stjórnarskipti þar sem ríkjandi stjórn steig sjálfviljug til hliðar eftir tap í kosningum. Stjórnarskiptin höfðu hins vegar lítil áhrif á stefnu landsins. Efnahagsstefnan var og er enn nokkurn veginn sú sama og áfram var stefnt að virkri þátttöku í samfélagi vestrænna þjóða. Saakashvili flúði aftur á móti land þegar hin nýja ríkisstjórn hugðist sækja hann til saka fyrir spillingu. 

Í stað Saakashvilis kom olígarki að nafni Bidzina Ivanishvili, sem er í meira lagi skrautlegur karakter. Hann auðgaðist  gríðarlega í stjórnleysingu í Rússlandi á 10. áratug síðustu aldar, fyrst á takkasímum sem voru iPhone þess tíma og síðar á kaupum á rússneskum ríkisfyrirtækjum. Bidzina þessi er eins og klipptur út úr James Bond mynd, enda ekki aðástæðulausu sem Daily Mail gaf honum viðurnefnið "hinn georgíski Scaramanga". Hann býr í risavaxinni höll i hlíðinni fyrir ofan miðbæ Tbilisi, sankar að sér rándýrum listaverkum, hann á hákarla, mörgæsir og bleika flamingóa og hefur blæti fyrir trjám. Tveir sona hans eru albínóar og annar þeirra er frægur rappari. 

Bidzina stofnaði Georgíska drauminn árið 2012 og varð sjálfur forsætisráðherra. Hann steig til hliðar ári síðar en andstæðingar hans vilja meina að ekkert gerist í georgísku samfélagi nema með hans samþykki. 

Vin í eyðimörkinni

Heilt yfir má segja að framfarirnar í Georgíu á umliðnum árum hafi verið stórkostlegar. Georgía er orðin eins konar vin í eyðimörkinni þegar horft er til nágrannarikjanna, Armeníu og Aserbaídsjan, svo ekki sé minnst á héruðin Rússlandsmegin í Norður-Kákasusinu. Einkum og sér í lagi er lýtur að mannréttindum. En það er mikið verk óunnið. Fátækt er enn mikil og framundan er nauðsynleg uppbygging innviða. Lýðræðið er enn viðkvæmt - þingið stendur afar höllum fæti gagnvart framkvæmdavaldinu og eftirlitshlutverk þess er ekkert. Þetta á einkum við um leyniþjónustuna sem sætir litlu sem engu aðhaldi. 

Persónulega er áhugavert að upplifa hversu gríðarlegan áhuga almenningur hefur á NATO og öðrum vestrænum stofnunum. 70 prósent landsmanna eru hlynnt NATO-aðild, nærri 80 prósent styðja aðild að Evrópusambandinu. Fjölmargir sækja þá viðburði sem NATO stendur fyrir. Þessi áhugi sprettur ekki upp af engu því í augum Georgíumanna er aðild að NATO eina leiðin til að losna undan oki nágrannans í norðri. 60 prósent þeirra líta á Rússa sem helstu ógnina við öryggi landsins og áróðursstarfsemi af hálfu Rússa og fylgihnatta þeirra færist sífellt í aukana og skipar æ veigameiri sess í starfsemi NATO í Georgíu. 

Fyrir Georgíumenn skiptir mestu að sjá framfarir, að þeir finni á eigin skinni að þeir tilheyri samfélagi Evrópuþjóða en séu ekki bara einn eitt "fyrrum Sovétlýðveldið". Stór áfangi náðist í mars þegar opnað var fyrir ferðalög án vegabréfsáritunarinn á evrópska efnahagssvæðið. Því fögnuðu Georgíumenn eins og heimsmeistaratitli. Sýnilegur árangur er þess vegna besta vörnin gegn undirróðursstarfsemi Rússa. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum