Hoppa yfir valmynd
21.06. 2017

Fræðsluherferð um griðarstaði UN Women í flóttamannabúðum og námskeið um jafnrétti og loftslagsbreytingar í Úganda

Jafnrettissjodur2017Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, úthlutaði á mánudag  tæpum 100 milljónum króna í styrki úr Jafnréttissjóði Íslands. Veittir voru styrkir til 26 verkefna og rannsókna sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna. Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður árið 2015 með ályktun Alþingis í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Hlutverk sjóðsins er að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.

UN Women hlaut meðal annars fimm milljóna króna styrk vegna verkefnisins "Kraftur til kvenna á flótta." Um er að ræða vitundarvakningarverkefni og fræðsluherferð um griðastaði UN Women í flóttamannabúðunum Za'atari í Jórdaníu. Tilgangur verkefnisins er að vekja landsmenn til vitundar um jaðarsetta stöðu kvenna á flótta í kjölfar stríðsins í Sýrlandi, fræða um alvarlegar afleiðingar ofbeldis og áfalla í kjölfar stríðsátaka en á sama tíma sýna fram á hvernig stuðla megi að valdeflingu kvenna á áhrifaríkan hátt. Um leið er markmiðið að vinna gegn fordómafullum hugmyndum um flóttafólk sem kunna að vera skjóta rótum hér á landi og mun fræðslugildi og hughrif verkefnisins aukast með því tefla saman íslenskum og sýrlenskum konum og sjá þær ræða saman á jafningjagrundvelli á griðastöðum UN Women í Za´atari.

Pétur Skúlason Waldorff fékk styrk upp á 3.6 milljónir króna en hann ætlar að skoða virðiskeðju í fiskeldisverkefni sem Íslendingar styðja í Gaza héraði í Mósambík út frá kynjasjónarhorni. Verkefnið nefnist á ensku: " Gender Focused Value Chain Development of Aquaculture in Gaza Province, Mozambique"

Þá hlaut Erla Hlín Hjálmarsdóttir verkefnastjóri hjá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna 700 þúsund króna styrk fyrir verkefið " Námskeið um jafnrétti og loftslagsbreytingar í Úganda."  Verkefnið byggir á námskeiðum sem mótuð voru og framkvæmd 2011-2013 í samvinnu við samstarfsaðila í Úganda og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Árangurinn af námskeiðunum var umtalsverður. Árið 2015 sendu stjórnvöld í Úganda beiðni til Þróunarsamvinnustofnunar um áframhaldandi samstarf, sem ekki hefur reynst unnt að bregðast við fram að þessu. Tilgangur verkefnisins er að bregðast við þessari beiðni og byggja á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram. Meðal annars verður byggt á kennsluefni sem búið var til fyrir námskeiðin. Meginmarkmið verkefnis er að vekja þátttakendur til meðvitundar um jafnréttis- og loftslagsmál og að byggja upp getu á því sviði í Úganda en samkvæmt umhverfisáætlun SÞ er getuupbygging fyrsta skrefið til að samþætta jafnréttismál í stefnu og verkefnum sem tengjast loftslagsmálum, bæði þau sem miða að því að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga, sem og koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar. Verkefnið styður sér í lagi við tvö heimsmarkmiðanna, annars vegar við hið fimmta sem snýr að jafnrétti kynjanna og hins vegar við hið þrettánda sem miðar að verndun jarðarinnar.

Loks má geta þess að Arnar Gíslason hlaut sex milljóna króna styrk fyrir verkefnið " Íslenskar lausnir og alþjóðleg tækifæri". Í verkefnalýsingu segir: "Þátttaka karla á vettvangi jafnréttismála" Ísland hefur skapað sér talsverða sérstöðu á alþjóðavettvangi þegar kemur að árangri í jafnréttismálum og má þar nefna stöðu Íslands efst á heimslista WEF undanfarin ár þar sem jafnrétti kynjanna er mælt (World Economic Forum, 2016), og þá verðskulduðu athygli sem hið íslenska kvennafrí og áætlanir um jafnlaunavottun hafa vakið. En Ísland hefur einnig vakið athygli fyrir þær aðferðir sem beitt hefur verið til að virkja karla á vettvangi jafnréttismála. Þar má nefna fæðingarorlof feðra, rakarastofu ráðstefnu Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og metþátttöku íslenskra karla í HeForShe átaki UN Women. Þá hefur þátttaka karla birst með ýmsum öðrum hætti á Íslandi, og er því gagnlegt að skoða vandlega þær aðferðir sem hafa verið teknar til gagns á Íslandi og hvernig hefur til tekist. Markmið þessa verkefnis er að bæta við þekkingu um þátttöku karla í jafnréttismálum, skoða hvernig framkvæmdin hefur verið, finna hagnýtar leiðir til að styðja við þessa þróun og kanna möguleika á nýtingu íslenskra lausna á alþjóðavettvangi. Ennfremur að gera grein fyrir þeim hröðu breytingum sem orðið hafa á vettvangi jafnréttismála þegar kemur að áherslu á karla og jafnrétti, og á aukna þátttöku karla og aðkomu þeirra að umræðu um jafnréttismál."

Nánar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum