Hoppa yfir valmynd
28.06. 2017

Brýnt að draga úr heimafæðingum til að lækka dánartíðni nýbura

BarnmangochiTæplega sextán þúsund ung börn deyja á hverjum degi víðs vegar um heiminn, samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum. Helmingur barnanna eru nýburar.

Fréttaveitan Voice of America segir að rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna á dánartíðni kornabarna hafi leitt í ljós að dánartíðnin hafi verið hæst í Afríku, að jafnaði 28 dauðsföll af hverjum 100 þúsund lifandi fæddum börnum. Ítarlegri greining Sue Grady í Michigan State háskólanum og annarra fræðimanna - sem náði til fjórtán Afríkuþjóða sunnan Sahara - sýndi að dauðsföll kornabarna voru marktækt tengd heimafæðingum þar sem börn fæddust án þess að þjálfað fagfólk kæmi við sögu.

Grady segir í samtali við VOA að margir nýburanna kafni strax eftir fæðingu eða nái aldrei að draga fyrsta andann. Önnur algeng dánarmein eru sýkingar og niðurgangspestir vegna mengaðs vatns. Að mati Grady mætti draga verulega úr dánartíðni nýbura ef fæðingar færu fram á sjúkrahúsum eða heilsugæslustöðvum að viðstöddu þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki. Hún segir að einblína þurfi á hreinlætisaðstæður við fæðingu barna, hreinsa vandlega naflastrenginn og gæta þess sérstaklega að vatnið sem barnið fær sé ómengað.

Börn eldri kvenna og stúlkubörn í meiri áhættu

Markmið rannsóknar Grady og samstarfsfólks hennar hefur það markmið að veita Sameinuðu þjóðunum upplýsingar til grundvallar baráttunni fyrir því að draga úr barnadauða. Á tíma þúsaldarmarkmiðanna, frá 1990 til 2015, tókst að minnka barnadauða um 53%, úr tæplega tólf milljónum árlegum dauðsföllum niður í sex milljónir. Með nýju Heimsmarkmiðunum er stefnt að því "að eigi síðar en árið 2030 verði bundinn endir á dauða nýbura og barna undir 5 ára aldri sem hægt er að koma í veg fyrir og stefni öll lönd að því að lækka dánartíðni nýbura að minnsta kosti niður í 12 af hverjum 1.000 fæðingum lifandi barna og dánartíðni barna undir 5 ára aldri að minnsta kosti niður í 25 af hverjum 1.000 fæðingum lifandi barna," eins og segir í markmiði 3.2.

Rannsókn Michigan háskólans leiddi í ljós að börn eldri mæðra eru í áhættuhópi og deyja fremur fyrsta sólarhringinn eftir fæðingu en börn yngri mæðra og eins sýndi rannsóknin að stúlkubörn eru í meiri áhættu en piltbörn. Ástæðurnar þessa eru ekki kunnar en vilji til að rannsaka þær, segir í frétt VOA.

Áherslur í íslenskri þróunarsamvinnu

Í íslenskri þróunarsamvinnu hefur verið lögð mikil áhersla á þennan þátt í Malaví, fyrst með uppbyggingu sveitasjúkrahússins í Monkey Bay þar sem reist var glæsileg fæðingardeild, og síðar í héraðssamstarfinu við Mangochi þar margar nýjar fæðingardeildir hafa risið í þorpum og ný fæðingardeild við héraðssjúkrahúsið er risin. Hún verður væntanlega tekið í notkun með haustinu. Malaví hefur verið í fremstu röð Afríkuþjóða í baráttunni við barnadauða og náð einstökum árangri, meðal annars með tilstuðlan Íslendinga, og heimafæðingum hefur til dæmis fækkað stórlega.

NánarAfrica's newborns- counting them and making them count/ WHO 
How to attack Africa's neonatal mortality problem/ MedicalXpress 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum