Hoppa yfir valmynd
28.06. 2017

Fjársöfnun til flóttamanna í Úganda mun minni en vænst hafði verið

AntonioGuterres-703x422"Áheitaráðstefna SÞ og ríkisstjórnar Úganda vegna stigvaxandi flóttamannavanda í landinu leiddi ekki til þess árangurs sem vænst hafði verið," segir Stefán Jón Hafstein forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala. Hann segir að fyrir ráðstefnuna í síðustu viku hafði verið gefið út að vonast væri eftir tveimur milljörðum dollara í áheit en niðurstaðan varð nær 360  milljónum dollara .  "Þetta er varla helmingur þess sem talin er þörf á, aðeins í ár.  Evrópuríkin voru lang öflugust í áheitum með nær 300 milljónir dollara samtals. Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland lögðu mikið af mörkum," segir hann. 

Ráðstefnan hófst fyrri daginn á ferð margra fyrirmenna til flóttamannasamfélaganna, en síðari dagurinn byrjaði á persónulegum sögum ungra og aldinna sem leitað hafa hælis í Úganda. Stefán segir að það hafi verið áhrifaríkar sögur sem varpað hafi ljósi á að bak við þessar háu tölur séu einstaklingar með vonir og þrár um betra og öruggara líf en það sem bjóðist í heimalandi þeirra.  

Úganda er gistiríki fleiri flóttamanna en nokkurt ríki Afríku og er þriðja í röðinni á heimsvísu á eftir Tyrklandi og Pakistan. Heildarfjöldi flóttamanna í landinu nálgast 1,3 milljónir og stefnir í 1,5 milljónir í árslok. Innan grannríkisins Suður-Súdan er talið að 2-4 milljónir manna séu uppflosnaðar.  Úganda er griðarstaður fyrir flóttamenn frá Suður-Súdan, þaðan koma langflestir, en einnig koma til landsins flóttamenn frá Kongó, Búrúndi, Eritreu og Sómalíu. Um 80% flóttamanna frá Suður-Súdan eru konur og börn.  Meira en sex hundruð þúsund manns hafa bæst í hópinn á innan við einu ári. 

"Svonefnt Solidarity Summit átti að draga athygli heimsbyggðarinnar að þessum mikla vanda, undirrót hans og því að Úganda hefur að margra mati rekið mjög framsækna flóttamannastefnu. Úganda hefur ,"opnað dyr" og veitir flóttamönnum margvísleg réttindi sem væru þeir innfæddir, ferðafrelsi, atvinnuréttindi og margvísleg önnur "fríðindi" sem leitt hafa til þess að ekki er talað um "flóttamannabúðir" heldur "samfélög" þar sem vonast er til að flóttamenn og heimamenn nái að búa í samlyndi. Úganda hefur uppskorið talsvert hrós fyrir," segir Stefán Jón. 

Markmið náðist ekki

UgandaradstefnaAlþjóðlegur stuðningur og skuldbinding er fjarri því að sögn Stefáns Jóns að vera nægjanleg og hlýtur að vera SÞ og Úganda vonbrigði. Áheitafé kemur ekki allt í einu og  ljóst er eftir ráðstefnuna að það sem lofað var nær ekki að greiða fyrir þarfir upp á 800-900 milljónir dollara í ár.  Hann segir að Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) sé þegar byrjuð að skera niður matarskammta til flóttamanna um 50%. 

"Fjárþörf til samfélaganna er því gríðarleg ennþá og vaxandi straumur flóttamanna enn. Talið er 2000 manns komi yfir frá Suður-Súdan daglega að jafnaði.  Skýr merki eru um aukna spennu milli flóttamana innbyrðis og í samskiptum við heimamenn. Sú jákvæða mynd sem dregin er af framsækinni flóttamannastefnu Úganda er í hættu vegna innbyrðis streitu og álags í heimahéruðum." 

Stefán Jón segir enga pólitíska lausn á undirrót vandans í Suður Súdan. Antonio Gueterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna brýndi alþjóðasamfélagið með beinskeyttum hætti að leita friðar í landinu. "Ákall um "friðsamlega" lausn hefur nú hljómað í fjögur ár á meðan blóðsúthellingar stigmagnast og kreppan er nú sú stærsta í Afríku síðan fjöldamorðin í Rúanda, 1994, að mati Guterres," segir Stefán Jón. 

Hann kveðst óttast að ástandið gæti farið úr óstöðugu í verulega slæmt í Úganda á stuttum tíma. Forseti Úganda og aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hafi hins vegar lýst ráðstefnunni sem "góðri byrjun."

Donors failing almost a million South Sudanese refugees in Uganda/ Amnesty International 
Q&A: Uganda's refugee minister seeks solidarity in first-of-its-kind summit/ Devex 
East Africa: Refugee Summit Leaves Uganda Still in Need of More Shs5 Trillion/ AllAfrica 

Refugee donations to Uganda: A breakdown of contributors/ NewVision

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum