Hoppa yfir valmynd
28.06. 2017

Sjávarútvegsskólinn og Heimsmarkmiðin

https://youtu.be/2uuWN20Lc4E Hafráðstefna Sameinuðu þjóðanna, sem nýlega var haldin í New York, gæti markað  straumhvörf í sambúð manns og sjávar. Vonir standa til þess að héðan í frá munum við nálgast viðfangsefni hafsins út frá langtímahagsmunum alls mannkyns, ekki hvað síst þróunarlanda. Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna ætlar að leggja sitt af mörkum til að svo verði. 

Ráðstefnan var tileinkuð Fjórtánda Heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem snýr að verndun og sjálfbærri nýtingu hafsins. Markmið voru reifuð í málstofum og kynntu þátttakendur síðan viljayfirlýsingar um framlag sitt til þeirra. 

Mikið er í húfi -- við þurfum jú heilbrigt haf til að tempra veðurkerfin á Jörðinni; til að framleiða lungann af því súrefni er við öndum að okkur; og til að tryggja umtalsverðum hluta jarðarbúa atvinnu, matvæli og næringu. 

Það gefur auga leið að ef við sláum slöku við er kemur að verndun og sjálfbærri nýtingu hafsins mun reynast erfitt að ná mörgum af hinum Heimsmarkmiðunum sextán, svo sem eins og markmiðunum um útrýmingu fátæktar, ekkert hungur, góða heilsu, góða atvinnu o.s.frv.   

Sjávarútvegsskóli Háskóla SÞ tók virkan þátt í málstofum Hafráðstefnunnar. Héldu starfsmenn hans m.a. á lofti mikilvægi þess að byggja upp þekkingu og færni innan stofnana sjávarútvegs þróunarlanda til að styðja við sjálfbæra nýtingu þeirra á auðlindum hafs og vatna. 

Á ráðstefnunni kynntu þeir tvær viljayfirlýsingar skólans sem tengjast þessari áherslu: 

Fjallar sú fyrri um "rannsóknir og menntun til stuðnings fjórtánda Heimsmarkmiði SÞ, sjálfbærum veiðum og bláa lífhagkerfinu í smáum þróunar-eyríkjum";en sú seinni um "rannsóknir og menntun til að bæta lífskjör, fæðuöryggi og hollustu matvæla í strandhéruðum Afríku". 

Í báðum tilvikum skuldbindur skólinn sig til þess, á næstu fimm árum, að bjóða fjórum nemendum á ári frá viðkomandi löndum að taka þátt í sex-mánaða námskeiði á Íslandi svo og til þess að halda a.m.k. þrjú örnámskeið sérhönnuðum fyrir aðstæður landanna. 

Hægt er að kynna sér viljayfirlýsingarnar betur, bæði á vef Sjávarútvegsskólans ( hér) og á vef Sameinuðu þjóðanna ( hér).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum