Hoppa yfir valmynd
05.07. 2017 Utanríkisráðuneytið

Árið 2030 er síðasti söludagur fyrir misrétti kynjanna

HildaEHildigunnur Engilbertsdóttir fulltrúi utanríkisráðuneytisins á stjórnarfundi UN Women í síðustu viku sagði Ísland leggja áherslu á að auka vægi kjarnaframlaga og mikilvægi þess að ná til karla og drengja til þess að ná fram raunverulegum samfélagsbreytingum. Stjórnarfundurinn var haldinn dagana 27.-28. júní 2017 í aðalstöðvum Sameinuðu Þjóðanna (SÞ) í New York.

Framkvæmdarstjórn UN Women er samansett at 41 aðildarríki, kjörin til þriggja ára í senn af efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu Þjóðanna (ECOSOC). Úthlutun sæta í stjórninni er svæðisbundin, en lönd í Afríku fá til dæmis tíu sæti á meðan lönd í Vestur-Evrópu og líkt þenkjandi íkja (WEOG) fá fimm sæti. Að sögn Hildigunnar átti Ísland síðast sæti í framkvæmdastjórn UN Women 2015 en samkvæmt nýrri formúlu um skiptingu sæta Vesturlandahópsins í stjórn UN Women er Íslandi tryggt eitt sæti á næstu sex árum. Fastanefnd Íslands í New York tekur þátt í starfi óformlegs vinahóps líkt þenkjandi ríkja á vettvangi SÞ sem styðja starf UN Women.

Hildigunnur segir að íslensk stjórnvöld hafi meðal annars veitt kjarnaframlög til UN Women og þegar þau hafi verið skoðuð miðað við höfðatölu hafi komið í ljós að Ísland var fjórða stærsta gjafaríki stofnunarinnar árið 2015.

"Á fundinum voru meðal annars kynnt ný drög að stefnu UN Women 2018-2021, farið yfir hverju var áorkað á tímabili undangenginnar stefnu 2014-2017, kynntar niðurstöður mats á stefnumótandi samstarfi UN Women við aðrar stofnanir sem og ársskýrslu um innri endurskoðun og rannsóknir," segir Hildigunnur og bætir við að einnig hafi verið flutt samantekt um verkefni UN Women í Sómalíu. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður þar í landi hafi UN Women unnið ötullega að því að auka hlutfall kvenna á þingi.

Starfsemi í 74 löndum

Í ræðu framkvæmdastýru UN Women, Phumzile Mlambo-Ngcuka, kom fram að UN Women er með starfsemi í 74 löndum þar sem aðallega er unnið að því að auka efnahagsleg áhrif og mátt kvenna en einnig að breytingum í stefnumótun ríkja sem og lagaumhverfi. Af niðurstöðum á því sviði má nefna að 72 lög í 61 landi voru samþykkt eða breytt árið 2016 með aðstoð UN Women, en 1,6 miljarður kvenna og stúlkna búa á því svæði. Phumzile lagði einnig áherslu á þatttöku einkageirans í baráttunni fyrir kynjajafnrétti og nefndi þar sérstaklega áhrif farsímavæðingar á atvinnuþátttöku kvenna. "Sem dæmi um þetta fjallaði Phumzile um verkefni UN Women í Rúanda sem hefur tengt saman þrjú þúsund kvenkyns bændur og samvinnufélög í gegnum farsíma og gerir þeim þar af leiðandi kleift að sækja upplýsingar til að mynda um markaðsverð á ýmsum vörum," segir Hildigunnur.

Á stjórnarfundinum tóku til máls fulltrúar 42 landa og gerðu grein fyrir afstöðu landa sinna til nokkurra málaflokka.

"Phumzile, sem nýlega var endurskipuð framkvæmdastýra UN Women, lokaði fundinum með því að lýsa því yfir að síðasti söludagur fyrir misrétti kynjanna yrði að vera árið 2030 og hvatti stjórnarmeðlimi til að láta kynjajafnrétti sig varða á öllum sviðum lífsins, ekki bara á stjórnarfundum," segir Hildigunnur. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum