Hoppa yfir valmynd
05.07. 2017 Utanríkisráðuneytið

Mannfjöldinn í Afríku og leiðir til að draga úr barneignum í álfunni

BarnafjoldiHelstu umræðuefni fulltrúa Afríkusambandsins á fundi í Addis Ababa í vikubyrjun tengdust ungu fólki og íbúafjölda álfunnar, spám um mannfjölgun, nýtingu mannaflans og síðast en ekki síst með hvaða hætti unnt sé að draga úr fæðingartíðni. 

Í frétt Deutsche Welle segir að margir óttist íbúafjölgun álfunnar en hafni engu að síður öllum takmörkunum á barneignum. Eins og fram kom í síðasta Heimsljósi sýna mannfjöldaspár að í 26 Afríkuríkjum verða íbúarnir tvöfalt fleiri árið 2050 en þeir eru í dag.

"Markmiðið er að draga úr fæðingum," segir Kaffa Rékiatou Christian Jackou ráðherra frá Níger og segir markmiðið að í hverju ríki séu sterkir einstaklingar, ábyrgir og virkir í atvinnulífinu. Jackou fer fyrir ráðuneyti mannfjölgunar í Níger en hvergi í heiminum er fæðingartíðnin jafn mikil eða 7,6 börn að jafnaði á hverja konu.Hann segir að mannfjöldi ætti í sjálfu sér ekki að vera vandamál nema því aðeins að efnahagsleg tækifæri skorti í viðkomandi ríki. Í fréttinni segir að allt sem lýtur að því að hafa áhrif á fæðingartíðni sé viðkvæmt umræðuefni í Afríku, álfu þar sem ríkidæmi er víða skilgreint á grundvelli fjölda barna.

Afríkusambandið vill hins vegar taka á þessu viðkvæma málefni og ræddi það í þaula á fundinum síðastliðinn mánudag með áherslu á unga fólkið í álfunni, 226 milljónir ungamenna á aldrinum 15 til 24 ára.

Samkvæmt mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna fjórfaldast íbúafjöldi Afríku því sem næst fram að næstu aldamótum. Þá verða íbúarnir alls 4,5 milljarðar talsins borið saman við 1,2 milljarð í dag. Nígería er nefnd sem dæmi um fjölgun íbúa. Þar búa núna um 180 milljónir en verða 800 milljónir í lok aldarinnar. Mörgum þykir óvissa ríkja um það að allt þetta fólk hafi í sig og á.

African Union Summit Opens in Ethiopia/ VOA 
Youth dividend or ticking time bomb?/ AfricaRenewal, sérútgáfa um ungt fólk

Deputy UN chief highlights stronger AU-UN partnership to benefit Africa's youth/ UN 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum