Hoppa yfir valmynd
05.07. 2017 Utanríkisráðuneytið

Snortin yfir öryggi og frelsi íslensku stelpnanna í samskiptum og sköpun

Solitogo2Mirlinda söngkona frá Tógó og rokkbúðastýra í Togo dvaldi síðastliðna viku í rokkbúðunum í Reykjavík hjá 13 - 16 ára stúlkum með styrk frá utanríkisráðuneytinu. Að sögn Aldísar Lóu Leifsdóttur hjá Sól í Tógó kom hún hingað til þess að deila reynslu sinni af stelpu rokkbúðunum í Togó og "taka inn strauma og stefnur í stelpu rokkbúðunum sem voru haldnar í Tónlistarskóla Sigursveins vikuna 26. - 30. júní," eins og hún orðar það. Til stóð að Modestine, gítarleikari og kennari, kæmi líka en vegabréfsáritun fékkst ekki fyrir hana. Að sögn Aldísar Lóu er unnið að því að fá Modestine í rokkbúðirnar í október í staðinn.

"Mirlinda var snortin yfir því hvað íslensku stelpurnar voru öruggar og frjálsar bæði í samskiptum og sköpun. Hún segir líka unaðslegt að sjá hvað þær voru óhræddar við sautján sjálfboðaliða og tónlistarkonur sem stjórnuðu rokkbúðunum í Hraunbergi," segir Aldís Lóa.

"Mirlinda segir samskipti á milli kynslóða einkennast af ójöfnuði í Tógó þar sem unglingum og börnum beri að sýna hinum eldri skilyrðislausa virðingu og hlýðni hvað sem tautar og raular og það hefti unga fólkið til þess að tjá sig og skapa. Sjálf hafi hún alist upp við það sem barn að mega ekki horfa í augun á móður sinni þegar hún yrti á hana. Uppeldið og skólakerfið í Tógó er gegnsýrt af þessu viðhorfi, að beygja sig fyrir yfirboðaranum, en sem betur fer er þetta að breytast hægt og rólega. Hún hlakkar til þess að fara heim og halda stelpu rokkbúðirnar í ágúst í Kpalime og leggja áherslu á það við tónlistarkennarana í búðunum að þær sem leiðbeina og stúkurnar sjálfar sem taka þátt séu jafnar og beri að virða og sýna hlýhug til hvor annarrar. Hún segist sjá fyrir sér að sumar stúlknanna í Tógó sem eiga eftir að sækja rokkbúðirnar í ágúst eigi eftir að geta skapað eigin músík en aðrar muni styðja sig við músík sem þær þekkja af YouTube. Hún ætlar sannarlega að hvetja þær til þess að skapa eigið efni," segir Aldís Lóa.

Á síðasta ári sóttu 30 stúlkur rokkbúðirnar hjá Mirlindu í Kpalime og vilja þær allar koma aftur í ár. Mirlinda telur það vera kost að fá sömu stúlkur aftur af því að þær kynntust á síðasta ári kvennarýminu og frelsinu sem fylgir því að vinna innan þess og geti því gengið ferskar til verks núna þegar þær koma í annað sinn. Aldís Lóa segir að Mirlinda hafi fjölgað plássum í búðirnar um 10 þannig að í ár komi 40 stúlkur.

"Vinsældir stúlkna rokkbúðanna í Togó er sannarlega miklar og ef efni væru til þá væri hægt að hafa fleiri búðir á ári. Fljótlega í haust verður aftur ráðist í hljóðfærasöfnun á Íslandi til þess að mæta þörfum búðanna í Tógó. En hljóðfæraskortur er aðal fyrirstaðan útbreiðslu stelpurrokksins," segir Aldís Lóa. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum