Hoppa yfir valmynd
05.07. 2017

"Þeim er fjandans sama um þetta fólk"

SjhOJÓgnaröld ríkir í Suður-Súdan og flóttafólk, aðallega konur og börn flýja yfir til Úganda. Áheitaráðstefna SÞ og ríkisstjórnar Úganda vegna flóttamannavandans varð ekki jafn árangursrík og vonir stóðu til. Fyrirheit voru gefin um 360 milljónir dollara, sem hrökkva skammt. Íslendingar lofuðu ekki sérstöku framlagi, en Stefán Jón Hafstein, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, sat ráðstefnuna og ræddi flóttamannavandann á Morgunvaktinni á Rás 1 í vikunni.

Á vef RÚV segir: " Málefni flóttafólks eru meðal stærstu vandamála heimsins. Þrjú helstu gistiríki flóttafólks eru Tyrkland, Pakistan og Úganda. Ekkert ríki Afríku fær fleira flóttafólk eins og Úganda. Líklega verða flóttamenn þar um ein og hálf milljón talsins fyrir árslok. Stefán Jón Hafstein segir að það kosti um 800 milljónir dollara á ári að reka þau samfélög flóttafólks sem orðið hafa til í Norður-Úganda. Flóttamannasamfélögin þekja sem svarar áttföldu höfuðborgarsvæði Íslands.  Vel hefur verið staðið að verki og hafa Úgandamenn hlotið lof fyrir. Hugsanlega eru Úgandamenn fórnarlömb velgengninnar - að hafa ekki kvartað nógu mikið. En vandinn er nú orðinn yfirþyrmandi og áfram streymir fólk  yfir ógreinileg landamærin frá Suður-Súdan, þar sem hörmungar ríkja.  Í Úganda vantar alla innviði til að taka við þessu fólki, konum og börnum að meirihluta. Þegar hafa matarskammtar verið minnkaðir um helming. Við það eykst spennan, og óánægja heimafólksins með áganginn kraumar undir.

En flóttamannastraumurinn stöðvast ekki á meðan ógnarástand varir í Suður-Súdan. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur sagt að vandinn í Suður-Súdan, sem er af mannavöldum, sé sá mesti sem átt hefur verið við í Afríku frá stríðinu í Rúanda. "Í Suður-Súdan eru klíkur sem eru að ræna landið. Helmingur landsmanna sveltur. Það virðist vera algjör fyrirlitning á samborgurunum frá hinum ráðandi herrum. Þeim er bara fjandans sama um allt þetta fólk. Þeir ætla að ræna landið." Suður-Súdan fékk sjálfstæði 2013 og síðan hefur ríkt þar ógnaröld. Tekist er á um olíulindir og aðrar auðlindir. "Ráðandi klíkur eru að þurrka það upp," eins og Stefán Jón orðaði það á Morgunvaktinni.

Óðinn Jónsson fréttamaður tók myndina af Stefáni Jóni.
Nánar á RÚV 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum