Hoppa yfir valmynd
30.08. 2017 Utanríkisráðuneytið

Íslenskur stuðningur við rannsóknir og veiðieftirlit samfellt í fjórtán ár

https://www.youtube.com/watch?v=EJ71duD88kE&feature=youtu.be Í meðfylgjandi myndbandi er frásögn í myndum og máli af siglingu á Cahora Bassa lóninu í Tete fylki í norðurhluta Mósambík sem er í raun risavaxið stöðuvatn, hvorki meira né minna en 250 kílómetrar að lengd og breiðast um 40 kílómetrar. Lónið varð til þegar Portúgalar byggðu samnefnda vatnsaflsvirkjun í Zambezi fljótinu um 1970 meðan Mósambík var enn nýlenda þeirra í Afríku. Virkjunin er sú stærsta sinnar tegundar í sunnanverði álfunni og rafmagnið er að mestu leyti flutt til Suður-Afríku.

Íslendingar hafa í þróunarsamvinnu stutt við rannsóknir á fiskistofnum og vistkerfi uppistöðulónsins allt frá árinu 2003. Við erum í vöktunarferð með Claque Jone Maunde yfirmanni Hafrannsóknarstofnunar Mósambík í útibúinu í Songo á bátskænu sem heitir Kapenda eftir smágerða silfurfiskinum sem mest er veitt af í lóninu. Tilapía er líka mikið veidd og í vaxandi mæli koma sportveiðimenn til Cahora Bassa til að egna fyrir tígrisfisk. Annars er talið að um tuttugu fisktegundir lifi í lóninu.
Fyrsti viðkomustaðurinn er í fiskeldisstöð í eigu útlendinga og ræktar tilapíu sem er góður matfiskur og eftirsóttur. Fiskeldi er tiltölulega ný grein í Mósambík en stjórnvöldum er mikið í mun að fiskeldi takist vel, bæði vegna ofveiði í sjó og vötnum, en ekki síður vegna þess að fiskur er hollur næringarríkur matur og ein af undirstöðum fæðuöryggis fjölmennrar fátækrar þjóðar.

Claque segir að verkefnið snúi aðallega að rannsóknum á umhverfisáhrifum við vatnið og veiðieftirliti með hagsmuni samfélaganna við vatnið að leiðarljósi. Markmiðið sé að stýra veiðunum betur og nýta vatnið á sjálfbæran hátt, fyrir íbúana og fyrirtækin sem gera út á silfurfiskinn. Fyrirtæki með leyfi fyrir slíkum veiðum eru um 50 við uppistöðulónið og fer fjölgandi. Við heimsóttum eitt slíkra fyrirtækja í ferðinni: það gerir út níu pramma til veiðanna sem fara fram að næturlagi í niðamyrkri. Ljós eru notuð til að lokka fiskinn í hringnótina og í hverri veiðiferð er kastað nokkrum sinnum yfir nóttina.

Claque segir að rannsóknir á lóninu feli meðal annars í sér söfnun gagna, bæði hvað varðar hefðbundnar fiskveiðar á smábátum, oftast eintrjánungum, og einnig í samvinnu við fyrirtækin sem gera út á smáfiskinn. Gott samstarf er við báða aðila um söfnun sýna sem síðan eru greind á rannsóknarstofunni í Songo og veita upplýsingar um stærð, aldur, kyn fiskanna og svo framvegis. Hann bætir við að fjórum sinnum á ári fari fram bergmálsdýptarmælingar, meðal annars til að meta stofnstærð fiskitegunda í lóninu og sjá hvar einstaka tegundir halda sig. Þessar rannsóknir eru afar mikilvægar til að styrkja stjórnun fiskveiða í lóninu en í núverandi þriðja áfanga verkefnisins milli Íslendinga og Mósambíkana er áhersla lögð á útfærslu og innleiðingu á heildstæðu fiskveiðistjórnunarkerfi.

Að sögn Claque er óvíst að öll fyrirtækin sem gera út á smáfiskinn lifi af. Hann telur hins vegar að kapendan þrauki þrátt fyrir ofveiði, en leggur áherslu á að ná betri tökum á stjórn veiðanna, ekki síst þeirra ólöglegu sem sagðar eru stundaðar í allmiklum mæli.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum