Hoppa yfir valmynd
30.08. 2017 Utanríkisráðuneytið

Íslenskur verkefnastjóri fiskimála hjá Alþjóðabankanum í Gana

SteinarÍsland fjármagnar stöðu sérfræðings á sviði fiskimála hjá Alþjóðabankanum með aðsetur í Accra, höfuðborg Gana.

Á undanförnum árum hafa íslensk stjórnvöld fjármagnað stöðu sérfræðinga hjá Alþjóðabankanum á sviði jarðhita og fiskimála, og koma þannig sérþekkingu Íslands betur á framfæri innan bankans. Nú starfar íslenskur sérfræðingur, Þráinn Friðriksson, að jarðhitamálum innan orkusjóðs bankans í Washington DC og fyrr á þessu ári var ákveðið að fjármagna stöðu sérfræðings á sviði fiskimála á skrifstofu bankans í Accra, Gana. 

Staðan var auglýst 18. mars sl. og sóttu 11 manns um starfið. Alþjóðabankinn ákvað að ráða Steinar Inga Matthíasson og hélt hann utan í síðustu viku. Steinar Ingi er með mastersgráðu í auðlindafræðum og hefur áralanga reynslu af störfum á sviði fiskimála. Hann starfaði hjá sjávarútvegsráðuneytinu 2003-2015, þar af síðustu fimm árin sem fulltrúi þess í sendiráði Íslands í Brussel, en frá árinu 2015 hefur hann starfað hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Steinar mun m.a. starfa að margþættu verkefni bankans um fiskimál í Vestur-Afríku (West-African Regional Fisheries Project - WARFP), sem m.a. felur í sér lán og styrki frá bankanum auk þess sem bankinn veitir löndum á þessu svæði tæknilega aðstoð á ýmsum sviðum fiskimála. 

Verkefnið nær nú til Cabo Verde, Gana, Gíneu Bissá, Líberíu, Máritaníu, Senegal og Síerra Leóne og er ætlað að auka hagrænan ávinning frá auðlindum sjávar með betri fiskveiðistjórnun, minni ólöglegum fiskveiðum og auknum gæðum og virði þeirra sjávarafurða sem veiðast á þessu svæði. Steinar mun einnig koma að uppbyggingu samstarfs við Nígeríu og að nýju verkefni sem ætlað er að ná yfir löndin fyrir austan og sunnan Nígeríu, þ.e. frá Cameroon til Angóla og jafnvel Namibíu.   

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum