Hoppa yfir valmynd
30.08. 2017 Utanríkisráðuneytið

Þögul neyð flóttafólks sem snýr aftur heim til Mósambík

https://www.youtube.com/watch?v=Pbg5dPUJj7g&feature=youtu.be Orlando Aviso er bæjarstjóri í Nkondezi þorpi í Mósambík skammt frá landamærunum að Malaví. Hann er á skrifstofu sinni, skoðar lista yfir mósambíska flóttamenn sem hafa snúið heim frá Malaví eftir rúmlega tveggja ára dvöl í flóttamannabúðum. Frá þessu segir í meðfylgjandi myndbandi frá Mósambík.

Aviso segir að flóttamenn hafi í lok ársins 2016 verið tæplega sex þúsund. Á þessu ári hafa rúmlega 350 bæst í hópinn. Alls er talið að um tíu þúsund íbúar á þessum slóðum hafi árið 2015  leitað skjóls í Malaví eftir að skærur blossuðu upp milli gömlu erkifjendanna Frelimo  og Renamo, samtakanna sem börðust í sextán ára blóðugri borgarastyrjöld. Henni lauk árið 1992 og kostaði eina milljón mannslífa.

Eftir ágreining um úrslit sveitastjórnarkosninga árið 2014 kom aftur til átaka, vígasveitir lögðu undir sig þorp, brenndu hús og flæmdu íbúana á brott. Margar fjölskyldur sáu þann kost vænstan að flýja yfir til nágrannaríkisins Malaví.

Gengur ekki að heimili vísu

Nú þegar fólkið snýr aftur heim til Mósambík - gengur það ekki endilega að heimili vísu. Það býr einhvers staðar og hvergi, eins og einn orðaði það. Í þessum hópi í Nkondezi þorpinu er fólk sem af ýmsum ástæðum getur ekki farið inn á heimili sitt aftur, húsið gæti verið brunnið, yfirtekið af skæruliðum eða óttinn við ofbeldismenn er svo sterkur að heimilisfólkið vill ekki snúa aftur.

Þögul neyð

Margir þessara flóttamanna í eigin landi eru því upp á aðra komnir. Sumir hafa fengi inni hjá ókunnugum gegn því að greiða fyrir gistingu með vinnu, aðrir hafa fengið inni í þessu yfirgefna nunnuklaustri og enn aðrir eru á vergangi. Verst er að þetta er þögul neyð. Engar alþjóðastofnanir eru hér að störfum til að hlynna að fólkinu, sjá fyrir grunnþörfum þess, og opinber stuðningur dugar ekki til framfærslu. Matarskortur er mikill.
Aviso segir mikilvægt að börn fái skólamáltíðir, þau hafi vanist því í Malaví, og verið sé að ýta á stjórnvöld að bregðast við. Sama gildi um hreint vatn, núverandi ástand sé óboðlegt en þar sem flestir flóttamanna hafist við sé ekki annað að hafa en skítugt vatn í nærliggjandi á; við ána er eins og sjá má hópur kvenna og barna við þvotta og böð.

Við bíðum eftir varanlegum friði, segir Aviso. Vopnahlé er í gildi en óttinn er ennþá til staðar. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum