Hoppa yfir valmynd
21.09. 2017 Utanríkisráðuneytið

Meiri þekking á Heimsmarkmiðunum en Þúsaldarmarkmiðunum

Heimsmarkmidin1_1505990360545Samkvæmt samantekt DevCom samtakanna á skoðanakönnunum víðs vegar um heiminn er almenn vitneskja um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna meiri en var á sínum tíma þegar Þúsaldarmarkmiðin voru í gildi. Viðhorfs- og þekkingarkannanir sem gerðar hafa verið um Heimsmarkmiðin sýna að milli 28 og 45 prósent aðspurðra hafa heyrt Heimsmarkmiðin nefnd.

 Í samantektinni segir að vitneskja um Heimsmarkmiðin þurfi ekki endilega að merkja þekkingu á markmiðunum sjálfum. Könnun Glocalities (2016) sem náði til 24 þjóðríkja hafi til dæmis leitt í ljós að aðeins einn af hverjum hundrað hafi þekkt "mjög vel" til Heimsmarkmiðanna og 25% hafi viðurkennt að þekkja aðeins hugtakið. Samkvæmt síðustu mælingu "Eurobarometer" fyrr á þessu ári þekkir aðeins einn af hverjum tíu Evrópubúum til Heimsmarkmiðanna.

Munurinn milli landa er mjög mikill. Samkvæmt könnun Hudson & vanHeerde-Hudson (2016) kváðust 2 af hverjum 10 í Þýskalandi og Frakklandi EKKI þekkja til Heimsmarkmiðanna en 4 af hverjum 10 í Bretlandi og Bandaríkjunum. DevCom segir að tölur sem þessar verði að taka með miklum fyrirvara, ætla megi að margir ofmeti í slíkum könnunum eigin þekkingu á Heimsmarkmiðunum.

Í könnun sem IPSOS gerði árið 2015 og náði til 16 landa kom í ljós að fólk taldi öll sautján Heimsmarkmiðin mikilvæg og stuðningur við þau öll var mikill meðal allra þjóðanna. Þegar spurt var um mikilvægustu markmiðin kom á daginn að fólk setti markmiðin um útrýmingu fátæktar, útrýmingu hungurs og hreint vatn/ salernisaðstöðu á oddinn.

IPSOS spurði líka um það hver ætti að fjármagna Heimsmarkmiðin. Tæplega fjórir af hverjum tíu töldu það vera í verkahring allra ríkisstjórna en aðeins 5% töldu að einkageirinn ætti að greiða fyrir markmiðin.
DevCom segir í samantektinni: "Heimsmarkmiðin eru oft kölluð markmið fólksins. Ríkisstofnanir sem styðja Heimsmarkmiðin þurfa að fá borgarana til liðs við sig, hlusta á þá og hvetja þá til aðgerða."

DevCom (Development Communication Network) eru samtök á vegum OECD.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum