Hoppa yfir valmynd
27.09. 2017 Utanríkisráðuneytið

Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar taka höndum saman og leggja 65 milljarða króna í verkefnið

https://youtu.be/VpsfYKdGFso Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar hafa hleypt af stokkunum stórátaki til höfuðs ofbeldi gegn konum og verja til þess 500 milljónum evra, eða um 66 milljörðum íslenskra króna. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir í frétt á vef upplýsingaskrifstofu SÞ (UNRIC) að aldrei fyrr hafi jafn miklum fjármunum verið varið til þessa málaflokks en ofbeldi gegn konum er talið til umfangsmestu mannréttindabrota í heiminum. Átakið nefnist Kastljós (Spotlight). 

"Umfangið er einnig fordæmalaust því hér er á ferð heildstætt átak sem nær jafnt til forvarna, sem verndar fórnarlamba og aðgangs að réttarkerfi," sagði Guterres þegar átakið var kynnt í tengslum við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Evrópusambandið verður langstærsti bakhjarl verkefnisins.

"Fjöldi ríkja sem það nær til á enga hliðstæðu, en ætlunin er að hafa djúp og óafturkræf áhrif. Sá metnaður að ná varanlegum, langtíma árangri í þágu kvenna og stúlkna er einnig fordæmalaus," er haft eftir Guterres.
Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins sagði að Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar myndu sameinast um átakið en samtökin væru  "fullkomið par."   

"Við munum sameina alla okkar miklu krafta," sagði Mogherini . "Allar hinar ólíku stofnanir Sameinuðu þjóðanna og mismunandi starfssvið Evrópusambandsins munu leggjast á eitt. Þegar þessi vél hefur verið ræst er hún býsna kraftmikil."  

Á næstu árum verður heildstæðum áætlunum hrint í framkvæmd í því skyni að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum, svo sem kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og skaðlegt framferði, mansal og efnahagslega misnotkun, stúlknadráp og heimilisofbeldi. Stefnt er að því að greiða fyrir lagasetningu, stefnumörkun og stofnanavæðingu, fyrirbyggjandi aðgerðir, aðgengi að þjónustu og upplýsingasöfnun í Afríku, Suður-Ameríku, Asíu, Kyrrahafinu og Karíbahafinu.

Guterres sagði að frumkvæðið myndi efla viðleitni til að hrinda í framkvæmd Heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun. Kastljós-frumkvæðið er "sannarlega sögulegt" sagði Guterres.  "Þegar við beinum kastljósi að því að auka völd kvenna, er framtíð allra bjartari." 

Nánar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum