Hoppa yfir valmynd
27.09. 2017 Utanríkisráðuneytið

Fiskveiðisafnið í Mapútó

https://youtu.be/CbyIBUH6grc Fiskveiðisafnið stendur við höfnina í Mapútó, höfuðborg Mósambíkur, og var formlega opnað í nóvember árið 2014 af forseta landsins. Byggingin sjálf er teiknuð af einum þekktasta arkitekt Mósambíkur, José Forjaz. Íslendingar og Norðmenn lögðu safninu til fjármagn á undirbúningstímanum sem hluta af verkefnastoð í fiskimálum en eftir opnun safnsins tók mósambíska ríkið alfarið yfir reksturinn. Safnið er það eina sem reist hefur verið á vegum stjórnvalda eftir sjálfstæði landsins.

Cassimo Marojo sýningarstjóri segir að sögu safnsins megi rekja rúmlega þrjátíu ár aftur í tímann. Sagan hefjist í raun fljótlega eftir sjálfstæði Mósambíkur þegar fyrsta ríkisstjórn hins nýfrjálsa lýðveldis ákvað að draga þyrfti fram í dagsljósið nýja hlið á fiskveiðum í landinu. Áherslan átti að vera á svokallaðar hefðbundnar veiðar í vötnum og við strendur landsins - og gæta þess að sýna ólíkar veiðiaðferðir og ólík veiðarfæri eftir landssvæðum, með öðrum orðum: menningu og sögu fiskveiða í landinu. Hann segir að nefndin sem fékk verkefnið hafi byrjað söfnun á munum og minjum sem tengdust fiskiveiðum landsmanna í þeim tilgangi að varðveita gamla muni áður en þeir glötuðust. Hann viðurkennir hins vegar að söfnunin hafi ekki verið forgangsmál í neinum skilningi, borgarastríðið og hörð lífsbarátta hafi sett strik í reikninginn, en smám saman hafi tekist að ná mikilvægum munum með sögulegt og menningarlegt gildi sem vísi að safni. Með samstarfi stjórnvalda við Noreg og Ísland hafi undirbúningur að formlegu fiskveiðasafni orðið að veruleika.

Auk þess að draga fram menningar- og sögulegar minjar um fjölbreytilegar fiskveiðar í landinu, og ekki síst fólkið sem kom að veiðum og verkun, er þar líka aðstaða til fundahalda og algengt er að skólar komi með barnahópa í safnið, að sögn sýningarstjórans. Samkvæmt TripAdvisor er Fiskveiðisafnið fimmta vinsælasta safnið í Mósambík.

Fisheries Museum (Museu das Pescas)/ TripAdvisor 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum