Hoppa yfir valmynd
27.09. 2017 Utanríkisráðuneytið

Flestar fjölskyldurnar í Tulu Moye lifa undir fátæktarmörkum

SosSOS Barnaþorpin fengu á dögunum styrk frá utanríkisráðuneytinu vegna fjölskyldueflingar í Tulu Moye í Eþíópíu. Styrkurinn er til fjögurra ára og verður framlag ráðuneytisins alls 67,6 milljónir króna.

Á síðasta ári styrkti utanríkisráðuneytið hagkvæmniathugun SOS á Tulu Moye svæðinu og er verkefnið núna beint framhald þeirrar athugunar, enda leiddi hún í ljós mikla þörf fyrir aðgerðir á svæðinu. Flestar fjölskyldurnar á svæðinu lifa undir fátæktarmörkum sem gerir það að verkum að vannæring barna er algeng ásamt því að þau eiga mörg hver ekki skó eða fatnað. Þá eru húsakynni fjölskyldna ekki góð.
HIV smit er algengt á svæðinu og þekking á sjúkdómnum ásamt smitleiðum er lítil. Þá eru siðir líkt og barnabrúðkaup og umskurður á kynfærum kvenna iðkaðir í samfélaginu.

Aðaláhersla samtakanna er að vinna náið með héraðsyfirvöldum, stofnunum, samtökum og öðru heimafólki við að efla hæfni og getu þeirra til að mæta þörfum barna þannig að fjölskyldur geti staðið á eigin fótum og tryggt velferð barna sinna til framtíðar. Verkefnið er þáttur í að byggja upp sterkara samfélag með sjálfbærum hætti sem getur brugðist betur við þörfum barna og bætt lífsviðurværi fjölskyldna svo þær geti einnig verndað börn sín og mætt þörfum þeirra.

Fjölskylduefling SOS Barnaþorpanna í Tulu Moye mun styðja við 1500 börn og forráðamenn þeirra á svæðinu sem berjast við fátækt. Áhersla er lögð á að efla börn, konur og ungmenni svo þau geti tekið fullan þátt í og notið góðs af félagslegum, hagrænum og pólitískum ferlum ásamt því að tryggja velferð og réttindi barna.

Skjólstæðingar verkefnisins fá meðal annars aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu, mataraðstoð, menntun og fræðslu ásamt því að þeir geta fengið örlán frá SOS Barnaþorpunum. Þá fá allar fjölskyldurnar í verkefninu sólarorkuknúið vatnshreinsitæki sem metur hvenær vatn er orðið drykkjarhæft. Starfsmenn SOS heimsækja fjölskyldurnar reglulega og útbúa áætlun í samráði við foreldrana. Áætlunin tekur mið af aðstæðum, þekkingu og hæfileikum hverrar fjölskyldu og tilgreinir í smáatriðum leið hennar til fjárhagslegs sjálfstæðis.SOS Barnaþorpin hafa mikla reynslu af hjálparstarfi í Eþíópíu en fyrsta barnaþorpið þar í landi hóf starfsemi sína árið 1976. Fjölskylduefling SOS hefur verið starfandi síðan árið 2007 í Eþíópíu með góðum árangri en í dag eru tæplega 14 þúsund börn sem fá aðstoð í gegnum "Fjölskyldueflingu í Eþíópíu."

Vefur SOS Barnaþorpanna á Íslandi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum