Hoppa yfir valmynd
27.09. 2017 Utanríkisráðuneytið

Stuðningur við foreldra fyrstu árin skiptir mestu máli fyrir börn

Unicefskyrsla0917Þrennt skiptir mestu máli í stuðningi við foreldra kornabarna sem styður andlegan þroska þeirra, að mati Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Einungis 15 þjóðir í heiminum hafa innleitt þessi þrjú atriði og framfylgja þeim á landsvísu. Hins vegar eru 32 þjóðir með ekkert þessara þriggja atriða í framkvæmd og í þeim löndum býr eitt af hverjum átta börnum í heiminum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF -  Early Moments Matter for Every Child -  en þar er rýnt í opinberan stuðning við foreldra ungra barna sem stuðlar að heilbrigðum andlegum þroska barnanna. Umrædd þrjú atriði sem UNICEF telur mikilvæg til þess að foreldrar hafi tíma og tækifæri til að styðja við eðlilegan þroska heilans eru tveggja ára leikskólamenntun, sex mánaða brjóstagjöf á launum og fæðingarorlof: sex mánuðir fyrir móður og fjórar vikur fyrir föður. "Þessi atriði gefa foreldrum kost á að vernda barnið sitt og veita því betri næringu ásamt leik- og lærdómsreynslu á þessum mikilvægu fyrstu árum þegar heili barnsins þroskast hraðar en á nokkru öðru æviskeiði," segir í skýrslunni. 

Meðal þjóðanna sem eru til fyrirmyndar að þessu leyti og uppfylla öll þrjú skilyrðin eru Kúba, Frakkland, Portúgal, Rússland og Svíþjóð. Í hópi hinna þjóðanna sem bjóða foreldrum og börnum þeirra ekkert þessara þriggja atriði eru 40% barnanna í aðeins tveimur ríkjum: Bangladess og Bandaríkjunum. "Við þurfum að gera meira til að gefa foreldrum og þeim sem annast ung börn þann stuðning sem börnin þurfa á þessu mikilvægasta tímabili heilaþroska," er haft eftir Anthony Lake framkvæmdastjóra UNICEF. 

Fram kemur í skýrslunni að milljónir barna yngri en fimm ára verja mótunarárunum í óöruggu umhverfi þar sem tækifæri til andlegs þroska eru af skornum skammti.

Frétt UNICEF

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum