Hoppa yfir valmynd
04.10. 2017 Utanríkisráðuneytið

Hjálparstarf kirkjunnar: Hjálp til sjálfshjálpar með enn fleiri sjálfsþurftarbændum í Eþíópíu

HjalparstarfHjálparstarf kirkjunnar hefur fengið vilyrði utanríkisráðuneytisins fyrir styrk til  þróunarsamvinnuverkefnis til þriggja ára í Kebri Beyahhéraði í Sómalífylki í Eþíópíu. Heildarupphæð styrksins nemur 80,7 milljónum króna. Verkefnið byggir á grunni verkefnis sem Hjálparstarfið hefur starfað að með sárafátækum sjálfsþurftarbændum í Jijigahéraði í Sómalífylki í tíu ár.

Markmið starfsins eru að bæta aðgengi fólksins að fæðu og hreinu vatni og að konur hafi meiri áhrif í samfélaginu og ákvörðunarvald yfir tekjum sem þær afla. Í öllu starfi er sjálfbærni og umhverfisvernd höfð að leiðarljósi.

Vel heppnuðu verkefni með sjálfsþurftarbændum í Jijigahéraði lýkur á árinu 2017. Hjálparstarfið og Lútherska heimssambandið sem er samstarfaðili á vettvangi ákváðu að hefja samskonar samstarf við sjálfsþurftarbændur í nágrannahéraðinu Kebri Beya.

Markmiðið á nýju verkefnasvæði er að tryggja fæðuöryggi með sjálfbærri fæðuöflun, efla völd og áhrif kvenna og auka aðgengi að vatni og bæta hreinlætisaðstöðu. Í heild taka 1.634 fjölskyldur (8.175 manns) í sex þorpskjörnum (kebele) þátt í verkefninu. 

Eþíópía er næstfjölmennasta ríki Afríku með 94,4 milljónir íbúa. Langflestir íbúanna eða 80% búa í dreifbýli. Um 45% þjóðarinnar er yngi en 15 ára og um 65% yngri en 24 ára að aldri. Eþíópía er eitt af fátækustu ríkjum heims, númer 174 af 188 ríkjum á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (HDI skýrsla, mars 2017). Um 82% þjóðarinnar lifa af landbúnaði.

Annað stærsta fylkið

Sómalífylki er næst stærsta fylki Eþíópíu og þekur 144.000 km2. Íbúar fylkisins eru 5.748.998 samkvæmt Hagstofu Eþíópíu en aðeins 14% þeirra búa í þéttbýli. Þurrkar eru tíðir og úrkoma stopul. Sómalífylki er eitt af fjórum fátækustu fylkjum í Eþíópíu. Vatnsskortur er í fylkinu og fæðuöflun ótrygg. 

Kebri Beyahhérað er í Fafansýslu (zone) í Sómalífylki. Í héraðinu búa 214.417 íbúar. Aðeins 61% af íbúunum hafa nægt aðgengi að drykkjarhæfu vatni. 84% íbúanna eru hirðingjar og hálfhirðingjar. 98.8% eru múslímar.

Bændur stunda búfjárrækt og og jarðrækt. Maís, sorghum og hveiti eru helstu korntegundur sem ræktaðar eru en laukur, tómatar og vatnsmelónur það grænmeti sem ræktað er. Framleiðslan er háð regni sem fer þverrandi. Búfé er nautgripir, sauðfé, geitur og kameldýr.   

Íbúar sækja vatn fyrst og fremst í vatnsþrær eða "birkur" sem eru háðar úrkomu. Mikill vatnsskortur er alvarlegasta vandamál íbúanna á þurrkatímum. Vatnsskortur orsakar skort á hreinlætisaðstöðu sem getur haft alvarleg áhrif á heilsufar íbúanna.  Samkvæmt íbúunum eru sjúkdómar af völdum óhreins drykkjarvatns tíðir en ekki eru til opinberar tölur um tíðni þeirra.

Jafnrétti kynjanna er ábótavant í fylkinu. Konur eru háðar eiginmönnum sínum um flest í daglegu lífi. Ójafnréttið má rekja til rótgróinnar menningar á svæðinu mun frekar en til trúarinnar. Konur sjá um að selja framleiðslu á markaði, sjá um eldamennsku, sækja eldivið og sækja vatn ásamt því að sjá um börnin. Þær hafa samt ekki völd til að taka ákvarðanir um land, búfénað eða fjármál. Þær fá ekki tilboð um þjálfun eða fræðslu frá stjórnvöldum og fá ekki sæti  við ákvarðanatökuborðið um sveitarstjórnarmál. Konur hafa ekki aðgengi að fjármagni til að hefa eigin atvinnurekstur.

LWF DWS hefur starfað í Eþíópíu frá árinu 1973. Heimssambandið hefur haft mikla og góða samvinnu við stjórnvöld en fyrst og fremst við fólkið sjálft sem býr við mikla fátækt að því að byggja upp samfélög sem eru sjálfbær, farsæl, þrautseig og réttlát.
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum