Hoppa yfir valmynd
04.10. 2017 Utanríkisráðuneytið

Kristniboðssambandið: Langtímamarkmið verkefnisins að öll börn á svæðinu gangi í skóla

SikMeðal verkefna sem hlutu stuðning utanríkisráðuneytisins í haust er "Menntun á jaðarsvæðum" Pókotsýslu í norðvesturhluta Kenía.  

Kristniboðssambandið hefur starfað á svæðinu meira og minna í tæpa fjóra áratugi en eins og vera ber hefur ábyrgð og stjórn færst til heimamanna á þessum tíma. Mikil áhersla hefur verið á skólagöngu og uppbyggingu menntakerfisins í samstarfi við yfirvöld. Samstarfsaðili Kristniboðssambandsins, ELCK (Evangelical Lutheran Church of Kenya) styður nú um eitt hundrað grunnskóla og um tuttugu framhaldsskóla. Yfirvöld reka skólana, þ.e. ráða kennara og greiða þeim laun, en Kristniboðssambandið er meðal þeirra sem  aðstoða við uppbyggingu skólanna sem yfirvöld ráða ekki við nema að mjög litlu leyti. Allir skólarnir eru að sjálfsögðu öllum opnir.

Af þessum skólum hafa um tíu grunnskólar og fimm framhaldsskólar að miklu leyti verið fjármagnaðir frá Íslandi, bæði með beinum stuðningi Kristniboðssambandsins og einstaklinga, annarra samtaka, ÞSSÍ og utanríkisráðuneytisins. Helsti stuðningsaðili ELCK á þessu sviði var Norwegian Lutheran Mission sem rak umfangsmikið þróunarverkefni í sýslunni í áraraðir sem NORAD fjármagnaði.

Verkefni á jaðarsvæðum sem hafa einkennst af þjóðflokkadeilum

Verkefnið "Menntun á jaðarsvæðum" miðar að því að halda þessari uppbyggingu áfram á þeim svæðum sem hafa orðið útundan og eru ekki beint í alfaraleið. Skólarnir eru viðurkenndir og skráðir af yfirvöldum, enda langt í aðra skóla, og stefna yfirvalda skýr, að öll börn njóti menntunar.

Markmið verkefnisins er að koma upp samtals átta einföldum kennslustofum, tveimur við hvern skóla og þar með fjölga þeim börnum á viðkomandi svæðum sem sækja skóla og ljúka grunnskólanámi og þeim fjölgi sem sækja framhaldsskóla. Skólarnir fjórir falla undir jaðarsvæði, þar sem bein samskipti við umheiminn eru lítil eða erfið vegna lélegra og ótryggra samgangna. Tveir skólanna eru í fjalllendi, hinir tveir á heitri, þurri sléttunni sem teygir sig norður eftir Túrkana. Ólæsi er mjög mikið á þessum svæðum. Jaðarsvæðin hafa einkennst af þjóðflokkadeilum og kúaþjófnaði en á liðnum árum hefur tekist að koma á friði sem er forsenda flestra framfara.

Langtímamarkmið er að draga úr ólæsi, ná öllum börnum inn í skóla og með góðum aðbúnaði koma í veg fyrir brottfall, ekki síst stúlkna en brottfall úr skóla er algengara meðal þeirra. Með þessu batnar menntun til muna. Árangurinn verður mælanlegur ef fylgst er með fjölda nemenda, fjölda brottfallinna nemenda og árangri á prófum.

Verkefnið snýr einvörðungu að uppbyggingu skólanna, ekki rekstri. Hann er í höndum yfirvalda sem hafa samþykkt þessa skóla og ætla að senda kennara til að sinna skólastarfinu. Verkefnið er afmarkað og sjálfbært. Framlag utanríkisráðuneytisins er 8 milljónir en heildarfjárhagsáætlunin er upp á 11,6 milljónir króna.  Mismunurinn skiptist milli Kristniboðssambandsins og heimamanna en þeir munu einkum leggja fram vinnu og efnisöflun. Hugsunin þar að baki er að byggja skólastofurnar með heimamönnum, ekki fyrir þá. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum